Kristján Berg, sem rekur fisk­verslunina Fiski­kónginn, er ef­laust frægasti fisk­sali landsins. Hann hefur lifað tímana tvenna; komst í kast­ljósið þegar hann var gripinn fyrir fíkni­efna­smygl árið 1997 og þá birtist nafn hans í Pana­ma­skjölunum. Í við­tals­þættinum Manna­máli, sem sýndur verður á Hring­braut í kvöld klukkan 20, fer Sig­mundur Ernir Rúnars­son yfir lífið með Kristjáni, sem hefur margar skemmti­legar sögur að segja. Meðal annars hvernig ráð­gjafi Ís­lands­banka ráð­lagði honum að koma peningnum sínum fyrir í Panama fyrir hrun.

Kristján segir frá því þegar hann seldi fisk­búð sína árið 2006 fyrir fúlgu fjár eftir að hafa fengið ó­vænt og mjög gott til­boð í hana. Hann hafi í kjöl­farið flutt með fjöl­skyldu sína til Dan­merkur. „Síðan spurði maður bara hvað eigum við nú að gera við alla þessa peninga? Því ég kann ekkert að fara með peninga. Ég kann bara að vinna en ég hef aldrei átt svona pening,“ segir Kristján.

Ráðgjafinn flaug út næsta dag

„Ég hringi sem sagt í Ís­lands­banka og segi þeim að ég eigi þarna ein­hvern pening og hvað væri nú hægt að gera?“ heldur Kristján á­fram. „Daginn eftir þá bara stendur maður frá Ís­lands­banka í and­dyrinu hjá mér í Dan­mörku að bjóða mér í einka­banka­þjónustu,“ segir hann. Maðurinn hafi þá flogið frá Lúxem­borg til Dan­merkur til að fá hann í þjónustu.

Hver var ráð­gjöfin?

„Ráð­gjöfin var sú að geyma peningana í Panama. Ég vissi það nú að skattar í Dan­mörku voru rosa háir og ekki ætlaði ég að láta danska ríkið hirða hann. Þannig úr verður að við stofnum fé­lag í Panama og síðan var ég bara með kort þar,“ segir Kristján.

Í kjöl­farið hafi ráð­gjafinn frá Ís­lands­banka látið hann kaupa hluta­bréf í ýmsum sjóðum. Fyrir vikið birtist nafn Kristjáns í Pana­ma­skjölunum og endaði ævin­týrið ekki betur en svo að hann tapaði öllum peningnum í hruninu 2008.

„Þetta var svoldið sjokk. Mér fannst erfiðast að segja konunni þetta. Við vorum í kjallaranum hjá mömmu, ný­flutt frá Dan­mörku. Vorum að fara að kaupa okkur hús og vorum með hluta­bréf og peninga í banka og allt í blóma lífsins. Að segja henni að allir peningarnir voru farnir út um gluggann. Það var rosa erfitt að vera með ó­fríska konu í kjallaranum hjá mömmu, komna fimm, sex, sjö mánuði á leið. Hún brotnaði niður,“ segir hann.

Síðan hefur hann þó náð sér aftur á strik, með fisk­búð og sölu á heitum pottum, sem ganga bæði vel.

Sigmundur Ernir ræðir við Kristján Berg í Mannamáli í kvöld klukkan 20.
Fréttablaðið/Hringbraut/Skjáskot

Sárt að vera gripinn en mikill léttir

Í þættinum ræðir Kristján einnig þegar hann var gripinn fyrir eitur­lyfja­smygl árið ´97:

„Það blundar nú bara í öllum held ég að vilja prófa lífið og fikta og ég var bara einn af þeim.“

Hvernig var að láta grípa sig?

„Það var sárt. En samt gott. Það er á­kveðinn léttir. Þegar þú ert náttúru­lega sjálfur að nota fíkni­efni þá fer hausinn bara eitt­hvað annað og þú ert svo­lítið í ein­hverju rugli. Þannig að til­finningarnar, þú veist ekkert af þeim,“ segir Kristján.

Hann var gripinn með 250 töflur af Ecsta­sy, sem inni­halda MDMA. Hann hlaut fyrir það tveggja og hálfs árs dóm. „Í dag held ég að dómurinn fyrir þúsund töflur sé mánuður eða eitt­hvað.“

Sjálfur segist hann hafi verið í neyslu á Ecsta­sy-töflum en aldrei farið út í önnur eitur­lyf. „Þetta virkaði svo ein­falt, bara ein tafla og vatns­glas. Ekki verið að sjúga í nefið eða sprauta sig eða reykja eitt­hvað hass. Ég hef ekki verið fyrir það og hef aldrei prófað það sko.“

Er þér kastað í steininn strax?

„Ég held ég hafi farið í öll fangelsi landsins. Ég fór í Síðu­múlafangelsi og ég held ég hafi verið í ein­angrun þar í viku. Það er svoldið skrýtið að vera tekinn út og settur í lokaðan stein­kassa, sjö-átta fer­metra, allt málað ein­hvern veginn gult og þú ert þarna bara í viku. Það fer margt í gegnum hausinn á þér á einni viku,“ segir Kristján. „Það mótar þig svoldið og brýtur þig niður.“

Hann segir að fangelsis­vistin hafi kennt sér margt og eitt það besta sem hafi komið fyrir hann væri að byrja hjá sál­fræðingi á Litla-Hrauni.

Þátturinn Manna­mál verður sýndur á Hring­braut í kvöld klukkan 20. Þá verður hægt að sjá fullt við­tal Sig­mundar Ernis við Kristján Berg, sem hefur frá ansi mörgu merki­legu að segja.