Karlmaður hefur verið ákærður fyrir að hafa myrt Celia Barquín Arozamena, upprennandi spænskan kylfing. Lík hennar fannst á golfvellinum Coldwater Golf Links í Iowa í Bandaríkjunum.

Kylfingar urðu varir við golfpoka sem lá í reiðuleysi á vellinum snemma í gærmorgun. Skammt frá pokanum fannst Barquín látin. Hún var 22 ára. BBC greinir frá.

Lögreglan í borginni Ames í Iowa hefur gefið út að konan hafi verið myrt. Jafnaldri hennar, Collin Daniel Richard hefur verið handtekinn og ákærður. Lögreglan ber að hann sé hvergi skráður til heimilis.

Barquín var mjög efnilegur kylfingur. Hún varð Evrópumeistari áhugamanna í sumar en lagði stund á nám í byggingarverkfræði við Iowa State-háskólann, hvar hún einnig lék golf.

„Við erum öll harmi slegin,“ haft eftir Christie Martes, yfirþjálfara kvenkyns kylfinga við skólann. „Celia var yndisleg manneskja sem var elskuð af öllum liðsfélögum sínum og vinum.“ Hún þótti framúrskarandi liðsmaður og stefndi á toppinn.