Laura Win­ham, 38 ára kona, er talin hafa legið látin í íbúð sinni í Sur­rey á Eng­landi í rúm þrjú ár áður en hún fannst. Breska ríkis­út­varpið, BBC, fjallar um málið.

Að­stand­endur konunnar segja að bresk fé­lags­mála- og heil­brigðis­yfir­völd hafi brugðist henni en Laura hafði glímt við al­var­lega geð­röskun. Það var bróðir Lauru sem fann hana látna í maí 2021 en talið er að hún hafi látist í nóvember 2017.

Í frétt BBC er haft eftir að­stand­endum að yfir­völd hafi hrein­lega snúið baki við Lauru og þau beri á­byrgð á hvernig fór. Yfir­völd segja að um „sorg­legt mál“ sé að ræða en þau muni ekki tjá sig frekar fyrr en rann­sókn er lokið.

Laura, sem glímdi við geð­klofa, bjó í fé­lags­legu hús­næði í Woking í Sur­rey og hafði slitið á öll sam­skipti við fjöl­skyldu sína.

Í októ­ber 2017 er lög­regla sögð hafa verið kölluð að heimili Lauru og þá hafi lög­reglu­mönnum verið ljóst að á­stand hennar væri slæmt. Hún hafi verið illa til höfð og virst van­nærð og lítinn mat verið að sjá á heimili hennar. Lög­regla skrifaði skýrslu um málið og sendi fé­lags­mála­yfir­völdum en ekki var brugðist við skýrslunni. Talið er að þetta hafi verið í síðasta sinn sem ein­hver sá Lauru á lífi.

BBC hefur eftir Nicky, systur Lauru, að við­vörunar­bjöllur hefðu verið búnar að hringja fyrir löngu. „Það er bara hræði­legt að hugsa til þess hvernig hún lifði síðustu ár sín,“ segir hún.