Laura Winham, 38 ára kona, er talin hafa legið látin í íbúð sinni í Surrey á Englandi í rúm þrjú ár áður en hún fannst. Breska ríkisútvarpið, BBC, fjallar um málið.
Aðstandendur konunnar segja að bresk félagsmála- og heilbrigðisyfirvöld hafi brugðist henni en Laura hafði glímt við alvarlega geðröskun. Það var bróðir Lauru sem fann hana látna í maí 2021 en talið er að hún hafi látist í nóvember 2017.
Í frétt BBC er haft eftir aðstandendum að yfirvöld hafi hreinlega snúið baki við Lauru og þau beri ábyrgð á hvernig fór. Yfirvöld segja að um „sorglegt mál“ sé að ræða en þau muni ekki tjá sig frekar fyrr en rannsókn er lokið.
Laura, sem glímdi við geðklofa, bjó í félagslegu húsnæði í Woking í Surrey og hafði slitið á öll samskipti við fjölskyldu sína.
Í október 2017 er lögregla sögð hafa verið kölluð að heimili Lauru og þá hafi lögreglumönnum verið ljóst að ástand hennar væri slæmt. Hún hafi verið illa til höfð og virst vannærð og lítinn mat verið að sjá á heimili hennar. Lögregla skrifaði skýrslu um málið og sendi félagsmálayfirvöldum en ekki var brugðist við skýrslunni. Talið er að þetta hafi verið í síðasta sinn sem einhver sá Lauru á lífi.
BBC hefur eftir Nicky, systur Lauru, að viðvörunarbjöllur hefðu verið búnar að hringja fyrir löngu. „Það er bara hræðilegt að hugsa til þess hvernig hún lifði síðustu ár sín,“ segir hún.