Maðurinn sem lenti í snjó­flóðinu í Móskarðs­hnúkum var í rúma tvo tíma grafinn undir snjó­flóðinu áður en hann fannst. Þetta kemur fram í til­kynningu frá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu en maðurinn var fluttur með þyrlu Land­helgis­gæslunnar á Land­spítalann í Foss­vogi. Ekki er hægt að veita upp­lýsingar um líðan mannsins að svo stöddu.

Lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu barst til­kynning um að þrír menn hefðu lent í snjó­flóði í Móskarðs­hnúkum klukkan 12:32, og fannst maðurinn sem lenti undir því klukkan 14:25. Fjöl­mennt lið við­bragðs­aðila tók þátt í leitinni, en allar björgunar­sveitir á höfuð­borgar­svæðinu, auk lög­reglu, slökkvi­liði og Land­helgis­gæslu kallaðar út.

Mennirnir voru í þriggja manna hóp á göngu­leið á Móskarðs­hnúkum þegar snjó­flóðið féll og var í fyrstu talið að tveir hefðu grafist undir því, en síðar kom í ljós að einungis einn hefði grafist í því. Hinir tveir voru fluttir með sjúkrabíl á Landspítalann.

Ekki er vitað hversu stórt snjóflóðið var og vill lög­reglan koma því á fram­færi að mjög mikil snjó­flóða­hætta er enn á svæðinu.

Mikil snjóflóðahætta er á svæðinu og gerði erfitt að tryggja öryggi björgunaraðila.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson
Björgunarsveitarmenn notuðust meðal annars við vélsleða við leitina að manninum.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson