Vel gekk að bjarga fjór­tán ára stúlku úr snjó­flóðinu á Flat­eyri í nótt segir for­maður björgunar­sveitarinnar Sæ­bjargar, Magnús Einar Magnús­son, í samtali við RÚV. Stúlkan var sofandi í rúmi sínu þegar flóðið skall á húsinu og snjór ruddi sér leið inn um gluggann. Móðir hennar og syst­kini hennar tvö, fimm og níu ára, komust úr húsinu út um stofu­gluggann.

Út­veggir höfðu færst

Magnús segir björgunar­að­gerðir hafa gengið greið­lega þar sem ljóst var frá upp­hafi hvar stúlkan væri í húsinu. Út­veggir á her­bergi stúlkunnar höfðu færst en vel gekk að moka þrátt fyrir það.

Snjó­flóða­stöngum var beint inn í her­bergið og þannig hægt að finna dýnuna í rúminu. Á­hersla var í kjöl­farið lögð á að moka þar niður. „Hún var ekki í rúminu en finnst mjög fljót­lega þegar á­hersla var lögð á rúmið,“ sagði Magnús í sam­tali við RÚV.

Heyrðu illa í öskrunum í gegnum snjóinn

Stúlkan sat föst í hálf­tíma áður en henni var bjargar. „Manni leið samt eins og þetta væru tveir tímar.“ Magnús segir þátt­tak­endur í að­gerðinni aldrei hafa verið jafn á­nægða að heyra grátur.

Snjórinn hafi verið það þykkur að illa hafi heyrst í öskrum stúlkunnar. „Um leið og hún finnst fer hún að gráta.“ Því næst var stúlkan færð í sund­laugina sem var hlýjasta svæðið i bænum.

Stúlkan var flutt með varð­skipinu Þór á sjúkra­húsið á Ísa­firði og er úr allri lífs­hættu.