Hinum 24 ára gamla Högna Fjalarssyni brá heldur í brún í morgun þegar 20 punda laxaferlíki beit á öngulinn.

Mældist laxinn um 94 sentímetra á lengd, heilir 47 sentímetra að ummáli og reiknast um níu kíló að þyngd.

Er um að ræða langstærsta laxinn sem Högni hefur náð á sínum ferli sem er meira en að segja það fyrir mann sem hefur stundað veiðar frá því hann var átta ára gamall gutti.

„Þetta er hrikalega skemmtilegt, kom frekar mikið á óvart og það er búið að vera draumur minn í langan tíma að fá svona stóran fisk,“ segir Högni í samtali við Fréttablaðið.

Voru ekki með háf

Laxinn var veiddur í Miðfjarðará í Bakkafirði, nánar tiltekið í Neðri-ármótahyl, með svartri frances flugu númer 16. Var Högni þar í slagtogi við kærusta systur sinnar.

„Við vorum ekki með háf svo ég hringdi í pabba minn og systur mína sem komu með háfinn og hjálpuðu okkur að ná honum.“

Skiljanlega kallaði það verkefni á nokkur átök og var hann kominn með laxinn í hendurnar eftir tæpar tvær klukkustundir.

Sjaldgæft er að ná svo stórum löxum en Högni segir að einungis tveir svipaðir að stærð hafi veiðst í Miðfjarðará á þessu ári.