Óttar Kolbeinsson Proppé
ottar@frettabladid.is
Föstudagur 26. febrúar 2021
23.30 GMT

Fáir hafa lifað eins við­burða­ríku lífi og Unnur Guð­jóns­dóttir. Á sinni rúm­lega 80 ára löngu ævi­braut hefur hún komið víða við í bæði leik og starfi; verið list­dans­stjóri Þjóð­leik­hússins, leikið á sviði Konung­lega leik­hússins í Stokk­hólmi og starfað sem blaða­maður við Dagens Ny­heter og Svenska Dag­bladet í Sví­þjóð. Hún er þó lík­lega þekktust fyrir sam­bönd sín við Kína, en Unnur hefur um tæp­lega fjöru­tíu ára skeið haldið úti hóp­ferðum frá Ís­landi til Kína og rekið safnið Kína­safn Unnar síðustu sex árin.

Hún fór sína síðustu hóp­ferð austur í fyrra og hefur skilað inn ferða­skrif­stofu­leyfi sínu. Sjálf segist hún þó á­fram vilja hjálpa fólki að skipu­leggja ferðir til Mið­ríkisins, eins og Kína heitir á móður­málinu, og kveðst jafn­vel vilja koma með sem leið­sögu­maður og ferða­fé­lagi. „Það er að segja ef þeir vilja hleypa mér aftur inn í landið eftir þetta við­tal,“ segir hún glottandi.

Hér gerir Unnur ekki að gamni sínu. Kín­verjar geta verið strangir hvað þetta varðar og þegar hún settist niður með blaða­manni til að fara yfir líf sitt og Kína­ferðirnar, sem eru orðnar þrjá­tíu og fimm talsins, á­kvað hún að tala tæpi­tungu­laust í ljósi þess að hún gæti vel hafa farið sína síðustu ferð til Kína. Því rekur hún hér ævin­týra­legar sögur af ferða­lögum sínum austur og sam­skiptum við inn­fædda, kín­versku lög­regluna og ekki síst smygl­hring í Hong Kong.

Fékk leyfi á Íslandi

Unnur segist geta rakið brennandi á­huga sinn á Kína til forn­grips sem prýddi æsku­heimili hennar, fal­legs bronskers frá Kína. Af því var hún heilluð sem barn og kveikti það ýmsar myndir af fjar­lægum ævin­týra­slóðum í huga hennar. Þegar hún svo var við dans­kennara­nám í Sví­þjóð á full­orðins­aldri kom þangað kín­verskur gesta­kennari að kenna Tai-Chi líkams­þjálfun. Þá kviknaði aftur á barns­legri ævin­týra­þrá Unnar. Hún varð að komast til þessa undur­sam­lega lands.

„Það var nú ekki auð­velt, skal ég segja þér, að koma sér til Kína á þessum tíma. Þarna voru engar svona skipu­lagðar ferðir fyrir ferða­menn og ég reyndi því að fá leyfi til að fara í gegnum kín­verska sendi­ráðið í Stokk­hólmi. Ég var komin með kennara­leyfi og ætlaði að reyna að komast út sem kennari sem væri að kynna sér kín­verska dansa. Þeir vildu alls ekki hleypa mér inn í landið,“ segir Unnur.

„Svo var ég í sumar­fríi hérna á Ís­landi árið 1983 og datt í hug að reyna sendi­ráðið hér. Ekki veit ég hvers vegna, en þeim leist svona rosa­lega vel á að ég vildi læra kín­verska dansa og vildu hleypa mér inn í landið.“

Unnur fór fyrst til Kína til að gera Tai-Chi líkams­þjálfun. Hér er hún í sér­stökum búning þeirra sem telja sig mjög góða í Tai-Chi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Slapp við eftirlit

Komin með vega­bréfs­á­vísun tókst henni svo að bóka ferð með kín­versku ríkis­ferða­skrif­stofunni og hélt nú af stað, fyrst til Moskvu og þaðan með sí­berísku hrað­lestinni til Beijing. „Þetta var allt mjög strangt. Þeir kröfðust þess að ég hefði Kín­verja með mér allan tímann á meðan ég væri í landinu. Það þýddi að ég þyrfti að borga þessari mann­eskju laun og allt uppi­hald hennar, annað hótel­her­bergi og svona, því ekki ætlaði ég að vera með hana með mér í her­bergi.“

Því þurfti hún að láta yfir­völd vita með hvaða lest hún kæmi, í hvaða vagni og hvaða koju, svo eftir­lits­manneskjan gæti tekið á móti henni við komuna í landið. „Það var búið að segja mér að hún myndi taka á móti mér á brautar­pallinum. Ég kem út úr lestinni og bíð á meðan allir tínast í burtu. Og svo stend ég bara eftir ein – það var enginn kominn til að taka á móti mér,“ segir Unnur. „Þannig að ég þýt auð­vitað út af lestar­stöðinni eins og píla og lét aldrei vita af mér.“

Lærði snemma á lögguna

Og þannig, fyrir sakir ó­út­skýran­legrar heppni, tókst Unni að ferðast eftir­lits­lausri um Kína árið 1983. Fyrir vikið kynntist hún landinu og ó­svikinni menningu þess á allt annan hátt en hún hefði gert ef hún hefði verið með eftir­lits­mann í eftir­dragi allan tímann. „Ef maður er einn getur maður nefni­lega gert ýmis­legt,“ segir hún sposk á svip.

„Ég tók eftir því á á­kveðnum tíma­punkti að vega­bréfs­á­vísunin mín var að renna út. Þá var ég í borginni Xi’an og fór á lög­reglu­stöðina þar til að reyna að fá þá til að endur­nýja hana fyrir mig. Þeir þver­tóku alveg fyrir það og sögðu að ég þyrfti að láta gera það í Beijing. Og það var þá sem ég prófaði að gera dá­lítið sem ég upp­götvaði að maður getur alltaf gert þegar maður lendir í vand­ræðum þarna; ég dró bara upp peninga­seðil og rétti þeim,“ segir Unnur. „Þá var þetta ekkert mál lengur og þeir endur­nýjuðu á­vísunina mína.“

Frá fyrstu ferðinni 1983. Unnur plokkar í sig frækorn úr lótusrót í Beihai garðinum í Beijing.
Mynd/Aðsend

Þannig að þú hefur mútað þig út úr ýmsum vanda­málum þarna? spyr ég Unni og nú er komin hálf­barns­leg glettni í okkur bæði þegar við ræðum þessi prakkara­strik full­orðnu konunnar.

„Já, þetta lærði ég snemma. Ef þú ert einn með lög­reglunni þá geturðu komist upp með eitt og annað því þeir vita að það eru engin vitni.“

Fleiri prakkarastrik

En ó­væntum játningum Unnar er hvergi nærri lokið. Komin með endur­nýjaðan passa hélt hún ferð sinni um landið risa­vaxna á­fram og endaði loks í Hong Kong. „Þá hófst næsta ævin­týri.“

Hvaða ævin­týri?

„Það er nú spurning hvað maður á að vera að segja þér mikið.“ Hún þagnar. „Ertu nokkuð að taka þetta upp?“

Jú, ég viður­kenni nú fyrir henni að ég hafi verið að því. Ekki fer ég að skrifa þetta allt eftir minni. „Það er nefni­lega dá­lítið á­huga­vert það sem gerðist þarna. En það má segja að ef ég segi þér það þá gæti það komið sér illa fyrir mig.

En það er nú orðið langt síðan. Fjöru­tíu ár eða svo.“ Hún hugsar sig um í dá­góða stund í­byggin á svip. Hún opnar munninn en hættir svo við. Að lokum færist prakkara­legt glott yfir and­lit hennar og hún lítur á mig. „Jæja, ég held að ég segi þér þetta bara samt. Og þú skalt vita það að ég hef ekki sagt nokkrum manni frá þessu. Ég gerðist nefni­lega smyglari.“

Ha?

„Já, ég var það sem kallað er burðar­dýr fyrir smygl­hring í Hong Kong,“ segir Unnur og flissar.

Taska full af seðlum

Ég ætlaði varla að trúa eigin eyrum og skelli upp úr.

Hverju varstu eigin­lega að smygla?

„Ég hef ekki hug­mynd um hvað það var sem ég var með í töskunum. Ég veit bara að þegar ég kom til baka úr leið­angrinum þá var ég með hliðar­tösku sem var út­troðin af hundrað dollara seðlum.“

Unnur rekur söguna svo alla. Við komu sína til Hong Kong vildi hún fyrir alla muni sleppa við að þurfa að gista á dýru og fínu hóteli. Hún er ekki mikið fyrir slíkt fínerí á ferða­lögum sínum um heiminn.

„Þegar ég kom til borgarinnar var ég voða­lega fljót að grípa það sem ég heyrði af götunum og fann svona hótel sem seldi bara koju­pláss. Þar vorum við mörg saman í kojum inni í einum sal og þar kynntist ég fólki sem var í þessu smygli,“ segir hún.

Dollarakerling frá Íslandi

Hún sam­þykkti svo að fara smygl­ferð fyrir hringinn frá Hong Kong til Seúl, þaðan til Tókýó og svo aftur til baka. Og nú fyrst neyddist hún til að ferðast með eftir­lits­manneskju með sér, þó ekki frá kín­verska ríkinu heldur smygl­hring í Hong Kong.

„Þau klæddu mig þarna upp í fínasta púss, sendu mig í snyrtingu og lögðu á­herslu á að ég væri alla­vega í sokkum, en ekki ber­fætt eins og ég var búin að vera. Síðan létu þau mig hafa ein­hverjar töskur og settu mig á fyrsta far­rými í flugunum. Það héldu öll yfir­völd að ég væri bara ein­hver dollara­kerling frá Ís­landi þannig að ég flaug í gegnum allt eftir­lit alls staðar,“ út­skýrir Unnur. „En í þessu ferða­lagi mínu var eftir­lits­manneskja á eftir mér sem fylgdi mér eins og skuggi til að vera viss um að ég stingi ekki af með töskurnar.“

Hún segist ekki geta giskað á hvað það var sem hún ferðaðist með í töskunum. „Ég kíkti aldrei í þær. Ég sá bara þegar það var tekið á móti þeim og þær opnaðar að þá voru ein­hver lúxus­föt þarna efst en ég veit ekkert hvað var undir þeim. Ég veit bara að þegar ég fór til baka frá Tókýó til Hong Kong var ég með þessa troð­fullu hliðar­tösku af peningum.“

Varstu ekkert hrædd um að verða gómuð?

„Ég vissi að þetta var hættu­legt. En ég var frá­skilin þarna og sonur minn orðinn 23 ára. Ég sendi honum kort áður en ég fór af stað og sagði honum að ef hann heyrði ekki frá mér í tólf ár þá væri allt í lagi með mig og við sæjumst þá. Vegna þess að ég vissi að hegningin fyrir smygl þarna úti voru tólf ár.“

Áttræð Lína Langsokkur

Og var þetta ekki bara fínt djobb?

„Jú! Og ég var í fleiri daga í Seúl og Tókýó þannig að ég auð­vitað nýtti tímann eins og brjál­æðingur og fór á söfn og skoðaði borgirnar. Þegar ég kláraði þetta svo átti ég svo mikla peninga að ég gat haldið á­fram að ferðast um Asíu; fór til Filipps­eyja og Taí­lands. Ég var eins og Lína Lang­sokkur,“ segir Unnur á­nægð.

Þar hittir hún naglann á höfuðið. Líkindin með skap­gerð og lífs­við­horfum Unnar og þessarar heims­þekktu per­sónu Astrid Lind­gren eru skýr. Og ef hún blessuð Sigur­lína Rúllu­gardína hennar Lind­gren hefði aldrei fengið sína helstu ósk upp­fyllta og, guð forði því, orðið full­orðin á endanum þá sé ég fyrir mér að hún hefði ein­mitt orðið svipuð týpa og átt­ræða konan sem situr fyrir framan mig.

Aftökulestin

Og þannig fór um það ferða­lag. Fyrsta ferð Unnar til Kína olli henni ekki von­brigðum og tæpum ára­tug síðar, árið 1991, fór hún í aðra ferð þangað og komst aftur upp með að ferðast um landið án eftir­lits­manneskju frá kín­verska ríkinu.

Sögurnar frá þeirri ferð eru ekki síðri, þótt Unnur full­vissi mig um að hún hafi aldrei staðið í smygli aftur á ævinni. En síður þessa blaðs eru sannast sagna of smá­gerðar fyrir allar sögurnar sem þessi kona hefur að segja. Þær eru jú hátt í fjöru­tíu ferðirnar sem hún hefur farið austur á bóginn og hver ferð hefur boðið upp á ný og ó­trú­leg ævin­týri.

Unnur var ein á flandri um götur Lanzhou þegar háar varnarflautur fara skyndilega af stað. Allir bæjarbúar tínast þá af götunum og fyrr en varir keyrir lest hertrukka fram hjá með fanga á leið til aftöku.
Mynd/Unnur Guðjónsdóttir

Eitt úr ferðinni 1991 hefur samt setið í Unni; þegar hún horfði upp á lest her­trukka keyra í gegnum borgina Lanz­hou með fanga á leið til af­töku. Hún smellti mynd af þessum hjálpar­vana sálum sem má sjá hér fyrir ofan.

„Þeir eru teknir af lífi fyrir eitur­lyfja­brask. Þeir eru látnir bera skömmina utan á sér og þess vegna eru þeir með þetta skilti um hálsinn. Fyrir ofan er greint frá glæpnum en nafnið þeirra er fyrir neðan. Svo er keyrt með þá í gegnum bæinn til að vara aðra við,“ segir Unnur.

„Þeir eru ekki með þessar sýningar í dag, enda ekki vin­sælar í hinum vest­ræna heimi, en taka samt jafn hart á þessum brotum enn þá.“ Unni hefur alltaf þótt hug­myndin á bak við al­ræðis­ríkið Kína merki­leg og segir magnað hvað margt sé ó­líkt þar og hér heima.

Dularfullt hvarf sendiherrans

„Svona al­ræðis­ríki kemst upp með allt. Eins og þetta með Ma Jis­heng sendi­herra.“ Blaða­maður verður að viður­kenna að hann kemur af fjöllum. Hvað með hann?

„Hann var sendi­herra hér í upp­hafi síðasta ára­tugar. Ég hef alltaf átt alveg sér­stak­lega góð sam­skipti við sendi­ráðið hérna á Ís­landi. Hann Ma Jis­heng var búinn að koma hingað heim til mín og sendi­ráðið búið að gefa mér ægi­lega fal­lega jóla­gjöf, ekta silki­efni. Svo hélt ég upp á kín­verska ný­árið hér heima árið 2014, eins og ég geri alltaf, og var búin að bjóða þeim hjónum hingað skrif­lega,“ segir Unnur.

„Ég var alltaf að bíða eftir að sendi­herra­bíllinn kæmi en þau létu aldrei sjá sig, sem var mjög ó­líkt þeim. Þá er ekki annað en ég kemst að því seinna, hvort það var þennan sama dag eða daginn áður, að þá fóru þau úr landi. Og það hefur ekki spurst til þeirra síðan.“

Nú? Ekki heldur úti?

„Þeir í Kína segja ekki neitt. En það fóru svo að berast fréttir af þessu og ég held að það hafi ein­mitt verið Frétta­blaðið sem skrifaði í septem­ber „Hvað varð um Ma Jis­heng?“. Sagt er að þau hafi verið tekin föst fyrir njósnir fyrir Japan. Það þýðir bara eitt,“ segir hún og dregur nú vísi­fingurinn þvert yfir hálsinn á sér.

Lög og reglur

Í við­horfum sínum til stjórnar­hátta Mið­ríkisins virðast þó togast á ein­hverjir djúp­stæðir þættir í Unni. Mörgu hlýtur auð­vitað að vera á­bóta­vant í kín­versku stjórnar­fari, en hvaða stór­veldi getur raun­veru­lega státað af öðru?

„Sko, ég er búin að eiga við Ríkið alveg frá árinu 1983 og upp­lifa alveg rosa­leg ævin­týri þar. Í Kína hef ég kynnst ægi­lega fínu fólki og þótt þar hafi stundum verið rosa­leg fá­tækt hefur þetta verið eitt­hvað það hjálp­samasta og vel­viljaðasta fólk sem ég hef fyrir hitt.“

„Og vel­megunin hefur orðið mun meiri á árunum frá 1983 þegar ég ferðaðist þarna fyrst. Það eru lög og reglur þarna og öðru­vísi kerfi en við þekkjum en margt er alveg of­boðs­lega á­huga­vert. Við skulum líka hafa það í huga að Kína er nú með næst­stærsta hag­kerfi í heiminum og það líða ekki mörg ár eða jafn­vel mánuðir þar til þeirra hag­kerfi verður orðið númer eitt,“ heldur Unnur á­fram.

Kínverjar hleypa ekki hverjum sem er til Tíbet. Unnur hefur hins vegar farið þangað fimm sinnum. Hér dansar hún með Íslendingum og Tíbetbúum árið 2007.
Mynd/Aðsend

Mao Zedong og kommúnismi


Hún bendir þá á það starf sem Kína hefur verið að vinna í Afríku; bjóða fram hjálp sína til hinna ýmsu ríkja, byggja upp mennta­kerfi í fá­tækustu ríkjunum þar og bjóða í­búum að sækja há­skóla­nám í Kína. Þetta er þvert á vest­ræna heims­veldis­stefnu, sem hefur fremur nýtt sér of­beldi og stríð til að ná undir sig á­hrifa­svæði. „Með góð­mennsku er hægt að safna vinum,“ segir Unnur.

„Saga Kína er mjög merki­leg og það hvernig þeir hafa farið að því að komast af með allan þennan fólks­fjölda þar sem flestir í landinu hafa þak yfir höfuðið og mat í magann. Þannig að fólk má segja það sem það vill um Mao Zedong og kommún­ismann í Kína en það er ekki gert í gegnum ná­granna- og hverfis­ráðs­fundi og fleira lýð­ræðis­legt að koma 1,3 milljörðum manna á lappir. Það þarf bara að kýla á það.“


Jafnvitlaus og ég hef alltaf verið


Unnur er nú, sem fyrr segir, hætt með hóp­ferðir sínar til Kína. Hún segist þó vilja fara aftur til landsins og þá vonandi aftur í skemmti­ferð fyrir sjálfa sig eins og í gamla daga en ekki í skipu­lagða hóp­ferð ferða­skrif­stofu sinnar.

„Ég finn að Kína togar enn þá. Þó að ég sé orðin átt­ræð þá er ég við fulla heilsu. Það er ekkert að mér nema það að ég er jafn­vit­laus og ég hef alltaf verið. Og það hefur hvorki minnkað né aukist með árunum, þetta helst bara svipað.“ Á þeim nótum ljúkum við sam­tali okkar við Unni Guð­jóns­dóttur og vonum að hún komist aftur til síns heitt­elskaða Kína, þrátt fyrir játningar sínar í þessu við­tali.

Unnur er merkis­kona en fleiri ættu að taka sér lífs­gleði hennar, barns­lega kank­vísi og ó­slökkvandi fróð­leiks­þrá til fyrir­myndar. Hún er lífs­kúnstner sem dembir sér af fullum krafti í at­burða­rás lífsins, sem síðan verð­launar hana fyrir hug­rekkið með miða á fyrsta far­rými á vit hinna dá­sam­legustu ævin­týra.

Athugasemdir