Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur til níunda febrúar yfir manni sem er með evrópska handtökuskipun yfir höfði sér vegna brota sem hann er talinn hafa framið á erlendri grundu. Ekki kemur fram í hvaða landi meint brot áttu sér stað.
Maðurinn er grunaður um að hafa sumarið 2020 stolið greiðslukorti af öðrum einstaklingi og notað það 59 sinnum ýmist með úttektum úr hraðbönkum eða í viðskiptum við verslanir. Samtals er hann talinn hafa eitt rúmlega þrettán þúsund evrum, sem jafngildir um tveimur milljónum íslenskra króna.
Í handtökuskipuninni kemur fram að háttsemi mannsins gæti varðað allt að átta ára fangelsi samkvæmt þar lendum lögum.
Samkvæmt greinagerð mannsins til Landsréttar á maðurinn sambýliskonu hér á landi og stjúpbarn. Þó kemur fram frá lögreglu að afskipti hafa verið höfð af manninum í október í fyrra vegna ætlaðs ofbeldis hans í garð sambýliskonu sinnar. Fram kemur að á heimilinu hafi einnig verið barn.
Þá segir að maðurinn hafi vitað af eftirlýsingu sinni og að hann hafi reynt að vera á Íslandi í felum.
Í úrskurði héraðsdóms segir að lögreglan á Suðurnesjum telji hættu á því að maðurinn muni „reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsmeðferð verði honum ekki gert að sæta þvingunarráðstöfunum á meðan meðferð málsins stendur yfir.“