Van­trausts­til­laga sem borin var fram á hendur fram­kvæmda­stjórn SÁÁ var felld á stjórnar­fundi sam­takanna í kvöld. Þetta kemur fram í frétt mbl.is um málið. Fundurinn hófst klukkan fimm í dag og lauk ekki fyrr en á níunda tímanum í kvöld. Fé­lag á­fengis- og vímu­efna­ráð­gjafa lýstu í gær yfir van­trausti á for­mann og fram­kvæmda­stjórn SÁÁ. Áður hafði starfs­fólk á með­ferðar­sviði SÁÁ lýst yfir van­trausti á for­mann og fram­kvæmda­stjórn.

Mikill á­greiningur hefur verið innan SÁÁ síðustu daga eftir að fram­kvæmda­stjórn sam­þykkti niður­skurð á starf­seminni, að hluta til vegna kórónu­veirufar­aldsins. Val­gerður Á. Rúnars­dóttir, yfir­læknir á Vogi, sagði starfi sínu lausu í kjöl­far sam­þykktarinnar.

Starfs­fólk með­ferðar­sviðs SÁÁ lysti yfir fullum stuðningi við Val­gerði og í kjöl­farið boðaði stjórn SÁÁ til skyndi­fundar. For­maður SÁÁ, Arn­þór Jóns­son, bauðst til þess að stíga til hliðar ef það þýddi að Val­gerður myndi draga upp­sögn sína til baka. Stjórnar­maður bar fram van­trausts­til­lögu á fundinum í kvöld en hún var sem fyrr segir felld.