Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis og leiðtogi Þjóðarflokksins (ÖVP), varð í gær fyrsti kanslari ríkisins frá því fyrir seinni heimsstyrjöld til þess að tapa vantraustsatkvæðagreiðslu á hendur sér. Vantrausti var einnig lýst yfir á ríkisstjórn hans.

Frelsisflokkurinn (FPÖ) sem áður var í ríkisstjórn með ÖVP studdi tillögurnar. Heinz-Christian Strache, leiðtogi FPÖ, sagði af sér fyrr í mánuðinum eftir að myndband birtist af honum þar sem hann virtist lofa konu, er sagðist frænka rússnesks auðkýfings, verktakasamningnum gegn því að hún keypti austurríska dagblaðið Kronen Zeitung og gerði umfjöllun þess hagstæða flokknum.

Kurz, þessi yngsti þjóðarleiðtogi heims, mun nú að öllum líkindum missa sæti sitt sem kanslari en að því er BBC greinir frá þarf austurríski forsetinn að skipa nýjan kanslara.

Jafnaðarmannaflokkurinn (SPÖ) stóð að tillögunni þingmenn hans kenna Þjóðarflokknum að hluta um hvernig fór. Segja að Kurz hefði ekki átt að treysta þjóðernishyggjuflokknum FPÖ.

Sá kanslari mun stýra Austurríki þangað til í september. Þá fara fram nýjar þingkosningar. Samkvæmt könnun Research Affairs sem birtist þann 21. maí er ÖVP vinsælasti flokkurinn og fengi 38 prósent atkvæða. SPÖ fengi 26 prósent og FPÖ átján prósent.