Að óbreyttu vantar 2 milljarða króna upp á fjárveitingar til Landspítala fyrir leyfisskyld lyf árið 2022. Þetta kemur fram í umsögn Landspítala um fjárlagafrumvarpið.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 1,5 prósenta vexti í lyfjakostnaði og fjárveitingu upp á 12.474 milljónir króna. Áætlaður heildarkostnaður er hins vegar 14.481 milljón eða 10 prósenta vöxtur.

„Að óbreyttu er ekkert svigrúm fyrir að taka ný lyf í notkun á árinu 2022 og fjárveitingar duga ekki fyrir þeim lyfjameðferðum sem nú þegar eru í gangi,“ skrifar Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítalans í umsögninni.

Meðal þeirra lyfja sem um ræðir eru lyf við merg­æxlum, krabbameinum, lifrarbólgu C og ýmis líftæknilyf gegn langvinnum bólgusjúkdómum. Þetta eru dýr og vandmeðfarin lyf sem heilbrigðisstarfsfólk þarf að koma að.

Mörg þessara lyfja hafa virkað mjög vel og bæði bætt lífslíkur fólks og veitt aukin lífsgæði. Aukin notkun og notkunarmöguleikar eru meðal þess sem hefur valdið því að lyfin hafa hækkað í verði.