Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra, segir að það þurfi að stíga síðasta skrefið sem auðlindanefndin mælti með fyrir tuttugu árum og taka sanngjarnt gjald fyrir fiskiauðlinda.

„Það var bara nafngiftin sem tengdist þáttunum en við vorum að ræða efnislega um þær breytingar sem þarf að gera í sjávarútveginum. Við höfum náð tveimur mjög veigamiklum markmiðum. Að fylgja vísindalegri ráðgjöf um heildaraflanna og að gjörbreyta rekstraraðstæðum og koma á hagkvæmum leikreglum fyrir sjávarútveginn,“ segir Þorsteinn í samtali við Fréttablaðið en hann hélt í kvöld erindi á fundi hjá Viðreisn þar sem sjávarútvegsmálin voru til umræðu en titill fundarins var Verbúðin Ísland og vísaði þar til þáttaseríunnar Verbúðin sem lauk nýverið sýningu á RÚV.

Þorsteinn segir að þessu hafi verið náð í þremur skrefum á fimmtán árum en að enn þurfi að ganga í það að taka fjórða skrefið sem auðlindanefndin lagði til fyrir tuttugu árum.

„Að taka sanngjarnt gjald fyrir tímabundin afnot, þá á einfaldlega eftir að stiga það skref og fyrir vikið vantar réttlæti í regluverkið,“ segir Þorsteinn sem þó hefur ekki trú á því að núverandi ríkisstjórn muni stíga þetta skref.

Hann segir að þetta sé þó næsta skref sem þjóðin þarf að taka og að stjórnmálin þurfi að leysa það.

„Ríkisstjórnin hefur sagt að hún ætli ekki að leysa málið en það eru tveir flokkar í ríkisstjórn sem hafa lofað kjósendum sínum að taka eðlilegt gjald fyrir og að gera þjóðareignina virka með því að tímabinda nýtingaréttinn. Þannig það er meirihluti á þinginu fyrir því að ljúka málinu ef þessir flokkar létu stærsta minnihlutann ekki króa sig af,“ segir Þorsteinn og að þjóðin þurfi að þrýsta á að þessir tveir flokkar efni þessi loforð.

Fundarröðin stendur í þessari viku en nánari upplýsingar um hana er hægt að finna hér að neðan.