Hagstofa Íslands hefur birt upplýsingar um hlutfallslegt misræmi menntunar þeirra sem eru starfandi, samanborið annars vegar við atvinnulausa og hins vegar þá sem standa utan vinnumarkaðar. Mælingin segir til um hversu hátt hlutfall atvinnulausra eða þeirra sem eru utan vinnumarkaðar þarf að auka við menntun sína til þess að dreifing menntunar sé sambærileg við þá sem eru starfandi. Þannig sést hvort aukin menntun þeirra sem eru utan vinnumarkaðar eða atvinnulausir myndi auka samkeppnishæfni þeirra á vinnumarkaði.

„Þessi mæling er fyrsti fasi í stærra verkefni Hagstofunnar sem hefur það að markmiði að gera og þróa færnispá til að kortleggja tengsl milli vinnumarkaðar og menntakerfis. Slík spá veitir innsýn í þróun framboðs og eftirspurnar á færni á vinnumarkaði og stuðlar að því að hægt sé að meta ójafnvægi á vinnumarkaði og misræmi á menntunarstigi miðað við starf,“ segir Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir, sérfræðingur hjá Hagstofunni.

Þeir sem hvorki fullnægja skilyrðum til þess að teljast starfandi né eru atvinnulausir standa utan vinnumarkaðar. Misræmi menntunar á milli starfandi og þeirra sem standa utan vinnumarkaðar náði lágmarki á öðrum ársfjórðungi 2008 (15,6%) en fór hækkandi fram til ársloka 2019 (27,9%). Þetta bendir til þess að samsetning menntunar hafi breyst milli starfandi og þeirra sem standa utan vinnumarkaðar.

Hlutfall þeirra sem standa utan vinnumarkaðar á aldrinum 25-64 ára og hafa grunnmenntun lækkaði úr 51,2% á fyrsta ársfjórðungi 2003 í 38,9% á þriðja ársfjórðungs 2020. Þá minnkaði hlutfall einstaklinga með framhaldsmenntun úr 39,2% í 31,3% á sama tímabili.Á sama tímabili jókst hlutfall einstaklinga sem standa utan vinnumarkaðar og eru með háskólamenntun úr 9,6% í 29,8%.

„Þessar tölur geta gefið ríkisstjórninni og stefnumótandi aðilum í mennta-, vinnumarkaðs- og atvinnumálum vísbendingu um hvað gera þurfi til að auka samkeppnishæfni atvinnulausra og þeirra sem standa utan vinnumarkaðar.Það er hlutverk Hagstofunnar að miðla tölfræðilegum upplýsingum á borð við hlutfallslegt misræmi menntunar til að stuðla að upplýstri umræðu og lýðræðislegum ákvörðunum en svo er það fyrrgreindra aðila að taka boltann og bregðast við í samræmi við þær upplýsingar,“ segir hún um niðurstöðu mælinganna um misræmi menntunar milli starfandi og þeirra sem standa utan vinnumarkaðar.

„Gögnin sýna enn fremur að misræmi menntunar atvinnulausra og þeirra sem eru starfandi minnkaði eftir bankahrunið árið 2008. Það gefur mögulega vísbendingar um að fleiri með framhaldsmenntun og/eða háskólamenntun voru í virkri atvinnuleit á þeim tímapunkti en samanborið við tímabilið fyrir hrun,“ segir Ragnhildur enn fremur um niðurstöður mælinganna.