Heimsóknarvinir með hunda er eitt af verkefnum Rauða krossins í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi. Markmið verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun einstaklinga með hjálp hunda. Sjálfboðaliðar heimsækja fólk sem þarf á vini að halda og taka hund með.

Karen Björk Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum, segir verkefnið ganga vel og að með nærveru hunda sé hægt að auka lífsgæði þeirra sem heimsóttir séu, létta þeim lífið og veita þeim kærkomna tilbreytingu í daglegt líf.

„Hundavinir heimsækja notendur sína ýmist á einkaheimili eða stofnanir, oftast einu sinni í viku, klukkutíma í senn,“ segir Karen, en bendir á að meta þurfi alla hundana til að þeir fái að taka þátt í verkefninu.

„Allir sjálfboðaliðar þurfa að klára bæði grunnhundamat hundavina og hundavinanámskeið,“ segir Karen. Matið er gert af reyndum sjálfboðaliðum í verkefninu sem meta hvort hundurinn og eigandi hans séu færir um að taka þátt í verkefninu.

Í matinu felst til að mynda hvernig hundurinn bregst við snertingu og óvænti snertingu, hvort hann gangi í taumi, geti hlýtt skipunum og hvort hann hafi hæfni til að sitja kyrr. Standist hundurinn ekki matið fær hann ekki að taka þátt í verkefninu eða hann og eigandi hans gætu þurft að vinna í ákveðnum þáttum og geta að því loknu sótt aftur um.

Næsta grunnhundamat fer fram 28. og 30. mars og hvetur Rauði krossinn einstaklinga og hunda til að taka þátt. Karen segir verkefnið tilvalið fyrir alla sem þurfi aukna nánd og gleði í líf sitt. „Hinar ýmsu rannsóknir hafa sýnt fram á að dýr hafa jákvæð áhrif á heilsu manna, bæði líkamlega og andlega,“ segir hún.

„Dýr draga úr streitu, lækka blóðþrýsting og vinna gegn þunglyndi þeirra sem umgangast þau, auk þess sem náið samband við dýr getur hæglega uppfyllt þörf manns fyrir hlýju, þægindi og umönnun,“ bætir Karen við og bendir enn fremur á að skráning í bæði grunnhundamat og á hundavinanámskeið sé nú í fullum gangi.

„Þetta eru námskeið sem eru tilvalin fyrir þá sem vilja láta gott af sér leiða í gegnum sjálfboðaliðastarf Rauða krossins og kjósa að gera það með sinn ferfætling með sér,“ segir Karen.