Ættfræði Friðrik Skúlason hafði veg og vanda af gerð ættfræðiforritsins Espólíns. Forritið var grunnur að gagnagrunninum Íslendingabók, sem unninn var í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu.

Friðrik biður fólk um að leggja hönd á plóg við að sjá til þess að upplýsingar um hverjir séu á gömlum ljósmyndum fari ekki í súginn.

„Það er mjög áhugavert fyrir fólk að sjá hvernig ættingjar þeirra litu út og núna eru þeir einstaklingar sem hafa vitneskju um hverjir eru á myndum af fólki fæddu í kringum 1900 komnir á háan aldur,“ segir Friðrik.

Að sögn Friðriks er mikilvægt fyrir menningararfinn að halda skrá um upplýsingar af þessu tagi.

„Því ætti fólk sem hefur kunnáttuna að setja myndir inn á prófíla á Íslendingabók. Þeir sem setja gamlar ljósmyndir inn á samfélagsmiðla mega líka endilega merkja hverjir eru á henni,“ segir Friðrik.

Þeir sem kunna ekki á þetta segir Friðrik ættu að leita aðstoðar.

Friðrik segir mikilvægt að halda upp á menningararfinn með þessum hætti.
Fréttablaðið/Pjetur

„Ég hef fundið fyrir viðbrögðum við þessari hvatningu minni og það er jákvætt. Betur má hins vegar ef duga skal. Áhugi á ættfræði kviknar vanalega í kringum fimmtugt en fólk yngra en það getur aðstoðað með tæknikunnáttu sinni,“ segir Friðrik.

„Ég hef heyrt af því að fólk sé að finna gamlar ljósmyndir þegar það erfir myndaalbúm og þar séu myndir af fólki sem það hefur ekki hugmynd um hvert er. Mér áskotnaðist til að mynda ljósmynd af langafa eiginkonu minnar á bryggjunni við Eyrarbakka og hún var ekki merkt á neinn hátt. Af þeim sökum hef ég ekki hugmynd um hverjir eru með honum á myndinni sem er bagalegt,“ segir ættfræðigrúskarinn.

Íslendingabók er vel lesin. „Á venjulegum degi eru um það bil fimm hundruð að skoða vefinn á hverjum tíma og nokkur þúsund á hverjum degi. Svo finnum við fyrir því þegar fólk er í kastljósi fjölmiðla út af einhverju að flettingar aukast á þeim einstaklingi,“ rekur Friðrik.

Einnig segir Friðrik aukningu í kringum ættarmót á sumrin og fyrir jól þegar fólk sé að skrifa jólakortin. Þá er fólk að afla sér réttra upplýsinga til að setja í kortin.

„Þessa stundina er ég að verja frítíma mínum í að uppfæra hliðarskrár Íslendingabókar með því að bæta við upplýsingum úr bændatölum frá 18. öld,“ segir Friðrik spurður hvað hann sé sýsla.