Halldóra R. Guðmundsdóttir, forstöðukona Konukots, segir að vel hafi verið tekið í ákall þeirra um hlýjan klæðnað fyrir skjólstæðinga hússins en að enn vanti hlýjar úlpur og skó.

„Viðbrögðin hafa verið mjög góð. Ég hef fengið fullt af póstum, meira að segja frá konum úti á landi sem hafa sent okkur föt í heimkeyrslu.“

Hún segir að enn vanti úlpur og skó.

„Við höfum verið að fá regnkápur, flíspeysur og allskonar þess háttar. Við höfum fengið úlpur en þær fara mjög hratt og það væri gott að fá fleiri og til að eiga eitthvað á lager.“

Hún segir að einnig vanti teppi. Þau fari yfirleitt hratt því þeim er líka deilt út og þá komi þau yfirleitt ekki aftur. Þá vanti einnig skó, alveg frá stærð 36 og upp í 43.

„Það vantar aðallega hlýja skó en við tökum alltaf við strigaskóm og öðru.“

Halldóra segir að prufur séu alltaf mjög vinsælar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Einnig er auglýst eftir snyrtivörum og segir Halldóra að eins litlar umbúðir og hægt er séu alltaf vinsælar, eins og prufur.

„Helst vantar bb krem, dagkrem, svitalyktareyði.“

Halldóra segir að hún vilji þakka góð viðbrögð.

„Það hefur svo mikið komið inn og kemur örugglega meira í dag. Ég vil bara segja takk.“

Fréttin hefur verið leiðrétt, forstöðukona Konukots heitir Halldóra, ekki Helga.