Agnes Veronika, sjúkra­liði, fær ekki út­gefið starfs­leyfi frá Land­læknis­em­bættinu og segist í sam­tali við Frétta­blaðið vera gáttuð á því. Agnes lýsir jafn­framt yfir furðu vegna málsins á Face­book og segist svekkt, sár og reið.

Agnes var ný­verið bak­vörður á hjúkrunar­heimilinu Bergi í Bolungar­vík, þaðan sem hún rekur ættir sínar. Amma Agnesar, hin 103 ára gamla Helga Guð­munds­dóttir og íbúi á Bergi, vakti lands­at­hygli á dögunum þegar hún jafnaði sig á CO­VID-19.

Í færslunni rekur Agnes það að hún hafi út­skrifast árið 2007 sem sjúkra­liði frá Fjöl­brauta­skólanum í Breið­holti. Hún tekur fram að hún hafi aldrei verið beðin um að sækja um hið áður­nefnda leyfis­bréf, því hafi hún ekki velt málinu fyrir sér frekar.

Hún starfaði svo sem sjúkra­liði til ársins 2011 þegar hún út­skrifaðist með gráðu í leiks­kóla­kennara­fræðum og er hún nú leik­skóla­kennari. Það hafi svo ekki reynst neitt til­töku­mál fyrir hana að skila inn stað­festingu frá FB og Hjúkrunar­heimilinu Sunnu­hlíð, þar sem hún starfaði sem sjúkra­liði.

Málin flæktust eftir bak­varðar­málið

Agnes rekur það svo í færslunni að eftir að hið svo­kallaða bak­varðar­mál kom upp hafi allt orðið flóknara. Málið vakti lands­at­hygli, þegar kona nokkur falsaði skjöl um eigin menntun og starfs­leyfi.

„Ég fékk hringingu um að ég væri ekki með Leyfis­bréf og fékk á­fall því við­eig­andi próf­skír­teini dugði á mínum gamla vinnu­stað,“ skrifar Agnes sem segist í kjöl­farið hafa farið í það að sækja um leyfis­bréf. Hún segist hafa staðið í þeirri trú um að hún væri full­gildur sjúkra­liði.

Þann 7. maí síðast­liðinn fékk hún svo synjun. „Þeir telja að ég hafi ekki við­haldið kunn­áttu minni frá út­skrift með því að hafa starfað lítið í greininni frá því að framan­greindu námi lauk. Mér er synjað á grund­velli á­kvæðis sem segir að sjúkra­liðum beri að við­halda þekkingu sinni,“ segir Agnes.

Hún bendir á að á­kvæðið eigi við um ein­stak­linga sem eru búnir með sjúkra­liða­nám og séu búnir að fá út­gefið starfs­leyfi. Það eigi ekki við um hana. Hún sé ekki sjúkra­liði í þeim skilningi, því sé ó­heimilt að beita á­kvæðinu til að synja um­sókn hennar.

„Ekkert er til í lögum um hvað langur tími má líða frá því að við­komandi lýkur námi og þangað til hann sækir um Leyfis­bréf.“

Svekkt, sár og reið

Í Face­book færslunni segist hún að lokum vera svekkt sár og reið. Hún upp­lifi sig niður­lægða á sama tíma og hún hafi unnið ó­eigin­gjarnt starf í mjög erfiðum að­stæðum á for­dæma­lausum tímum.

„Einu svörin sem ég hef fengið frá Land­læknis­em­bættinu eru þau að þeirra á­kvörðun standi og að ég þurfi að kæra niður­stöðuna til heil­brigðis­ráð­herra,“ skrifar Agnes.

„Ég hafði aldrei hugsað út í þetta en vann alveg heil­lengi á hjúkrunar­heimili. Og þetta var alltaf alveg nóg og ég aldrei beðin um leyfis­bréf og ég hugsaði ekki út í þetta. Ég hef grun um að ég sé ekki eini sjúkra­liðinn sem er ekki með leyfis­bréf,“ segir Agnes í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Þannig ég fór bara á fullt að reyna að redda þessu og það var erfitt í þessu CO­VID á­standi, það var brjálað að gera en ég fékk fjöl­skylduna mína í bænum að að­stoða mig og ég þurfti að búa til um­boð og það varð að koma í pósti,“ segir Agnes. Pósturinn hafi verið í sótt­kví og vesenið því mikið.

„Það var enginn af­sláttur gefinn út á þetta og mér leið eins og það væri alltaf verið að reyna að tefja mig. Á meðan þessu ferli stóð fékk ég póst um að ég væri ekki sjúkra­liði fyrr en ég væri kominn með leyfis­bréfið og ég var samt eins og hamstur á hjóli að reyna að redda málunum.“

Furðar sig á nýrri reglu­gerð um út­gáfu starfs­leyfa

Agnes segist jafn­framt furða sig á nýrri reglu­gerð sem inni­heldur nýja reglu­gerð um breytingu á ýmsum reglu­gerðum vegna út­gáfu starfs­leyfa. Henni finnst á­kvarðana­taka Land­læknis­em­bættisins bera keim af nýju reglu­gerðinni.

„Svo kemur þetta inn á borð til þeirra, þremur vikum seinna, um 20. apríl. Svo kemur í ljós að það er ný reglu­gerð, sem er mjög at­hyglis­vert og ég sé ekki hvernig hún stenst,“ segir Agnes.

„Því það er greini­legat að þau eru að reyna að hafa þetta til hlið­sjónar. En þau mega það ekki því mitt mál er komið inn á borð til þeirra áður en þessi reglu­gerð er gefin út,“ segir Agnes. Hún spyr sig hvað gerist við þá sem hafi löngu lokið sjúkra­liða­náminu.

„Þeir sem klára menntunina 1980, 1990, hvað gerist? Fyrnist námið? Þetta er eitt og sér gott rann­sóknar­verk­efni, hvernig þau ætla að fram­fylgja þessari reglu­gerð. Þetta á líka við um margar aðrar heil­brigðis­starf­stéttir,“ segir Agnes.

Hún segist hafa spurt lög­fræðing Land­læknis­em­bættisins að því hvernig hún eigi að við­halda menntun sinni sem sjúkra­liði án þess að vera sjúkra­liði. „Ég myndi vilja meiri rök­stuðning fyrir þessari reglu­gerð, ég er ekki lög­fræðingur, en þetta er gjör­sam­lega fá­rán­legt. “ segir hún.

„Svo kemur ekki fram hvernig á að fram­fylgja þessu. Er námið mitt bara fyrnt? Er þetta bara búið? Ég get ekkert gert nema að kæra og það er ekki á allra vegum. Þeir stinga ekki upp á neinu úr­ræði.“