Karlmaður á sextugsaldri, sem áður starfaði hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, hefur verið dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn fyrrverandi stjúpdóttur sinni.

Dómur í málinu féll í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku. Ákæra á hendur manninum var gefin út í febrúar í fyrra en hann hefur áður verið kærður fyrir að brjóta kynferðislega á ungum pilti. Engin ákæra var gefin út eftir rannsókn þess máls.

Í dómi héraðsdóms segir að Barnavernd Reykjavíkur hafi hinn 20. desember 2017 sent erindi til lögreglu þar sem óskað var eftir rannsókn á því hvort ákærði hefði brotið kynferðislega á stúlkunni en maðurinn var í sambandi með móður hennar um sjö ára skeið.

Klóraði stúlkunni og strauk á óviðeigandi stöðum

Tekin var skýrsla af stúlkunni í Barnahúsi rúmri viku síðar þar sem hún lýsti því hvernig hann kom fram við hana á „svokölluðum pabbahelgum“. Móðir hennar og maðurinn höfðu þá skilið að skiptum en hún farið í heimsókn til hans reglulega.

Hann hafi talað við hana eins og hún væri fullorðin, raunar „komið fram við hana eins og hún væri kærastan“ eins og segir í dómi. Í viðtalinu í Barnahúsi lýsti stúlkan því hvernig hann hafi kysst hana blautum kossi, strokið henni og klórað á óþægilegum stöðum. Kvaðst henni líða illa í návist hans, sérstaklega þegar þau voru ein.

Í seinna viðtali við stúlkuna í Barnahúsi sagðist hún hafa átt að fara í heimsókn til mannsins 15. desember 2017 en ekki viljað fara. Móðir hennar hafi boðið henni að hringja ef hún vildi láta sækja sig. Í heimsókninni hafi hann klórað henni og strokið rass hennar. Hann hafi síðan kysst hana, lagst upp að henni, stungið fingri sínum í endaþarm hennar og þvingað kynfærum sínum við rass hennar.

Maðurinn starfaði hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
Fréttablaðið/GVA

Bar fyrir sig skurðaðgerð

Maðurinn hafi hætt um leið og sonur hans kom heim en stúlkan fór heim til sín að þessu loknu og sagði móður sinni frá því hvað hafði gerst. Sonur mannsins sagði í skýrslutöku hjá lögreglu að faðir hans og stúlkan hafi verið um tuttugu mínútur ein í herberginu sem stangast á við frásögn mannsins sem sagði mínúturnar hafa verið þrjár til fimm. Sonurinn sagðist hafa séð þau liggja í rúminu í herberginu og hann heyrt föður sinn tala með óvenjulegum hætti við stúlkuna.

Í skýrslutöku hjá lögreglu neitaði maðurinn afdráttarlaust hvers lags óeðlilegum samskiptum við stúlkuna. Kvaðst hann hafa klórað henni á bakinu í tveimur tilvikum. Annars vegar fyrir svefninn og hins vegar þegar þau horfðu saman á sjónvarpið.

Síðar, í annarri skýrslutöku, sagðist maðurinn aðspurður aldrei hafa lagst upp í rúm til stúlkunnar. Hann hafi setið í rúminu. Ennfremur hafi hann ekki getað brotið á stúlkunni eins og lýst var þar sem hann hafði gengist undir skurðaðgerð tveimur dögum áður.

Framburður stúlkunnar var metinn greinargóður að teknu tilliti til aldurs og þroska. Ekki væri að sjá að skýrslan litaðist af sérstökum kala til mannsins eða öðru en einlægni og hreinskilni. Þá hafi framburður hennar og sonar mannsins haldist í hendur þrátt fyrir að framburður hins síðarnefnda hafi breyst fyrir dómi.

Greiði stúlkunni 1,8 milljónir

Ekki var fallist á vörn mannsins um að hann hafi ekki getað brotið á stúlkunni sökum skurðaðgerðar. Framburður skurðlæknis sem kom fyrir dóminn útilokaði ekki að hann hefði getað framið brotið.

Líkt og fyrr segir var maðurinn starfsmaður hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. RÚV fjallaði um málið á sínum tíma og greindi frá því að hann hafi verið kærður til lögreglu fyrir nokkrum árum fyrir að brjóta kynferðislega á ungum pilti, en hann starfaði þá hjá öðru sveitarfélagi.

Þegar málið var til rannsóknar hjá lögreglu hafi maðurinn hætt störfum hjá viðkomandi sveitarfélagi. Hann var síðan ráðinn í stöðu hjá stofnun á vegum ríkisins og í framhaldinu af því til starfa hjá Reykjavíkurborg.

Maðurinn var sem fyrr segir dæmdur í 30 mánaða fangelsi en auk þess til greiðslu 1,8 milljóna króna handa stúlkunni auk málskostnaðar.