Elísabet Kristín Jökulsdóttir, rithöfundur, vígir verkið „Þetta líður hjá“ í Hveragerði á morgun. „Þetta er stóll sem að stendur á bakka Varmár og þú getur sest í hann ef þér líður illa, þá líður það hjá eins og áin,“ segir Elísabet í samtali við Fréttablaðið.

Sefar órólegar tilfinningar

Verkið er tileinkað unglingum. „Þetta verk varð til fyrir nokkrum árum í hausnum á mér þegar umræða um unglinga og þeirra vanlíðan var ofarlega á baugi í umræðunni.“ Að sögn Elísabetar fékk mikið á hana að unglingar tækju sitt eigið líf þegar það var rétt að byrja. „Við stóðum alveg ráðþrota gagnvart slíku og höfum enn ekkert fengið neina almennilega lausn á því.“

Hún segir verkið vera sitt framlag í umræðuna. „Ég er ekki að segja að það sé bara nóg að sitja á steini og heyra lækjarnið en það er bara eitt af því sem ég held að geti hjálpað.“ Það sé mikið sem hægt sé að læra af náttúrunni að sögn Elísabetar.

Eitt skref í einu

„Það þarf að taka eitt skref í einu til að komast á toppinn, það hef lært af náttúrunni. Ef ég hugsa bara um toppinn þá missi ég alla orkuna í líkamanum mínum þannig best er að hugsa bara um næsta skref.“

Þegar áin líður hjá myndast rými í huga fólks að sögn Elísabetar. „Þegar manni líður illa er maður svo þjakaður að maður getur ekki hætt að hugsa um það. Síðan fer maður að tala við vini sína og sálfræðing þannig að það er stöðugt fast í huganum.“ Snerting við náttúruna taki völdin af fólki og hreinsi hugann. „Þegar ég sit og áin líður hjá þá gleymi ég mér og hugsa ekki neitt.“

Hér má sjá höggmynd Matthíasar Rúnars og Elísabetar Jökuls.

Tólf tonna griðarstaður

Stólinn sem verður ákveðinn griðarstaður fyrir fólk vegur tólf tonn. „Fyrst var ég að hugsa um að setja skrifstofustól, ráðherrastól eða bara koll við ánna en allt í einu laust því í huga minn að höggva bara út stól og stæla Michelangelo pg Thorvaldsen.“

Í upphafi ferilsins ætlaði Elísabet sjálf að setjast í myndhöggvarastólinn. „En svo rakst ég á þennan algera snilling sem heitir Matthías Rúnar Sigurðsson sem er ungur myndhöggvari.“ Matthías hefur víða haslað sér völl og er einn fárra sem heggur út í stein á Íslandi. „Ég leitaði hann því uppi og samstarfið gekk svo vel upp að hann á heilmikið í verkinu.“

Öllu til tjaldað

Stærðarinnar steinn sem kemur úr Núpafjalli varð síðan valinu og hjó Matthías út stól í hann. „Maður getur þá fengið sér sæti í steininum líkt og á stól,“ bætir Elísabet við.

Vígsla listaverksins er á morgun haldinn verður gjörningur við hátíðlega athöfn við Varmá. „Þá ætla ég að segja nokkur orð og það verður ljóðalestur og lúðrablástur og svo vonandi að það verði líka dans,“ bætir Elísabet glettin við en hún er nú í óðaönn við að semja nokkur dansspor.

Steininn er úr Núpafjalli en hér má sjá Elísabetu príla ofan á hann.