„Það er farið að verða hálf vandræðalegt að þurfa stöðugt að vera ræða þetta við fjölmiðla að heilbrigðiskerfið hafi ekki nægilega afkastagetu til að sinna öllum þeim sem þurfa að koma,“ segir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans í samtali við Fréttablaðið um stöðu bráðamóttökunnar.

Landspítalinn sendi frá sér tilkynningu á miðvikudaginn síðastliðinn vegna mikils álags á bráðamóttökunni þar sem greint var frá því að mögulega þyrfti að vísa fólki á önnur úrræði.

Hjalti Már segir um 25 sjúklinga liggja á bráðamóttökunni sem bíði eftir því að fá legudeildarpláss á öðrum deildum. „Enn hefur ekki verið leystur þessi skortur á legudeildarrýmum til að annast þau sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús.“

Að sögn Hjalta Más leiðir skortur á legurýmum til þess að bráðaþjónusta gangi hægar en þau myndu vilja.

Aðspurður hversu lengi sjúklingar þurfi að bíða á bráðamóttökunni segir Hjalti Már það oft vera dögum saman. „Þarna er fólk oft í gluggalausum rýmum, jafnvel að vistast á ganginum. Þetta er mjög óþægilegt fyrir sjúklinga og að sjálfsögðu ekki neitt í samræmi við þá staðla sem almennt eru um hvernig við viljum annast veikt fólk,“ segir Hjalti Már.

Ófremdarástand

Hjalti Már segir að þrátt fyrir að sjúklingar fái góða umönnun sé erfitt sé að gæta að smitgát og persónuvernd sjúklinga í þessum aðstæðum.

„Svo er afar erfitt að reyna ná einhverri hvíld á ganginum og það er fátt mikilvægara fyrir fólk sem hefur slasast eða er alvarlega veikt að ná að sofa og hvílast til að ná heilsu aftur.“

Að sögn Hjalta Más hafa engar aðgerðir yfirvalda náð að leysa vandamálið sem er sannarlega ekki nýtt af nálinni. „Þegar svona ófremdarástandi hefur verið leyft að þróast í langan tíma, þá tekur sinn tíma að vinna ofan af því.“

Gista á ganginum

Hjalti Már er þó bjartsýnn á að nýr forstjóri og heilbrigðisráðherra séu að vinna af fullum krafti í að reyna finna lausnir.

„Ég hef líka enga trú á því að íslensk þjóð sætti sig við það til langs frama að við búum svona að slösuðum og veikum. Því miður er það þannig að það er líklegt að öll okkar munu einhvern tímann þurfa á þjónustu landspítalans að halda og þá viljum við ekki lenda í því að það séu ekki til tiltæk rúm til að leggjast í.

Sennilega fæst ef nokkur okkar myndu sætta sig við það að ferðast til útlanda og gista á ganginum á hótelinu og það er fráleitt að við séum búin að byggja upp það samfélag að fólk sem er bráðveikt þurfi að vistast við þær aðstæður á Landspítalanum,“ segir Hjalti Már jafnframt.

Mannsæmandi þjónusta

Mikið hefur verið uppsagnir á bráðamóttökunni undanfarið og segir Hjalti Már starfskjörin hafa verið þannig að fólk hafi ekki viljað vinna nægilega mikið.

Þá taki tíma að byggja upp fjölda fullnægjandi menntaðra starfsmanna sem hafi löngun til að koma og vinna á spítalanum. „Ég hef nú trú á því að heilbrigðisráðherra sé nú að vinna í þessu.“

Hjalti Már segist hafa trú á því að ráðist verði í stórt átak til að til að vinda ofan af vandamáli spítalans þannig að hægt sé að veita öllum mannsæmandi þjónustu án tafar.