„Það leysir ekki allan vanda þeirra sem eiga við spilafíkn að etja, að loka happdrættisvélunum,“ segir Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ), aðspurð um afstöðu HHÍ til kröfu Samtaka áhugafólks um spilafíkn (SÁS) um lokun spilakassa.

Niðurstöður viðhorfskönnunar sem framkvæmd var af Gallup síðasta vor sýndu að 86 prósent Íslendinga vildu að spilakössum yrði lokað til frambúðar, en spilakössum var lokað vegna sóttvarnareglna í kórónaveirufaraldrinum. Happdrætti Háskólans er annað tveggja fyrirtækja sem reka spilakassa hér á landi, hitt er Íslandsspil sem rekið er af Rauða krossinum og Landsbjörg.

Fyrirtækin tvö reka einnig heimasíðuna abyrgspilun.is með það að markmiði að leggja sitt af mörkum til að styðja við íslenskar rannsóknir á spilafíkn og ábyrga spilun. Spurð að því hvort þversögn felist í því að HHÍ taki þátt í rekstri vefsíðunnar og leggi sitt af mörkum til að hjálpa spilafíklum þegar stór hluti þess hóps segir neyð sína og vanda mega rekja beint til spilakassanna sem sömu fyrirtæki reka segir Bryndís að svo sé ekki.

„HHÍ hefur lagt sig fram við að stuðla að ábyrgri spilamennsku og haft frumkvæði á þessu sviði án aðkomu eða afskipta eftirlitsaðila og meðal annars fengið vottun samkvæmt staðli evrópskra ríkishappdrætta um ábyrga spilun (Respons­ible gaming certificate). Hér er því ekki um neina þversögn að ræða,“ segir Bryndís.

Hlutverk HHÍ er að fjármagna uppbyggingu Háskóla Íslands, bæði er varðar húsnæði og tæki. Bryndís segir það lögbundið hlutverk HHÍ að fjármagna húsbyggingar Háskólans og að happdrættið hafi nú fjármagnað á þriðja tug háskólabygginga. „Það hefur ríkt samfélagsleg sátt um þetta form og HHÍ heldur utan um reksturinn með ábyrgum hætti,“ segir hún.

Allur hagnaður af rekstri HHÍ skal nýttur til uppbyggingar Háskólans. Spurð að því hversu miklar tekjur HHÍ hlaut af spilakössum á síðasta ári segir Bryndís HHÍ ekki gefa upp tekjur „einstakra þátta í starfsemi sinni“.

Það hefur ríkt samfélagsleg sátt um þetta form og HHÍ heldur utan um reksturinn með ábyrgum hætti.

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2019 var hagnaður HHÍ það árið rúmir 1,6 milljarðar króna. Í árslok átti happdrættið tæpa þrjá milljarða í eigið fé, þar af um 1,2 milljarða í handbært fé. Sama ár voru framlög og greiðslur til Háskóla Íslands 580 milljónir króna.

Uppi hefur verið umræða um að taka upp svokölluð spilakort hér á landi en í þeim felst að spilarar spili með fyrirframgreiddum spilakortum. Þannig megi stjórna betur þeim fjárhæðum sem spilað sé fyrir. Bryndís segir HHÍ lengi hafa bent á kosti slíkra korta, en að einnig sé unnið að lausn sem snúi að því að spilarar auðkenni sig með rafrænum hætti.

Bryndís segir að horfa þurfi á málið í stærra og víðara samhengi en með lokun spilakassa. Til að mynda þurfi að taka erlenda netspilun inn í myndina. Þeir sem spili finni sér annan farveg og lokun kassanna gæti leitt til þess að spilun færðist úr löglegu umhverfi og undir radarinn, einnig yfir á netið. „Í stað þess og með núverandi fyrirkomulagi, skilar starfsemin umtalsverðum tekjum til samfélagslegra mikilvægra málefna, tekjum sem ella hyrfu alfarið úr landi.“