Forstjóri Neytendastofu segist ekki vera sammála niðurstöðu Landsréttar að eCommerce hafi þurft að lúta dönskum lögum en ekki íslenskum í lánssamningum sem félagið gerði við viðskiptavini sína. Íslensk lög segja til um hámarkslántökukostnað, ólíkt þeim dönsku.
„Við erum augljóslega ekki sammála þessari niðurstöðu, annars hefðum við ekki tekið ákvarðanir með þessum hættu og áfrýjunarnefndin staðfesti niðurstöðu okkar,“ segir Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu í samtali við Fréttablaðið.
Aðdraganda málsins má rekja til þess að árið 2019 komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að smálán danska félagsins eCommerce væru ólögleg þar sem lánssamningar vísuðu til þess að dönsk lög ættu að gilda um starfsemina.
„Það var verið að fara fram hjá íslenskum lögum með því að starfrækja sig í öðru landi,“ segir Þórunn Anna og bætir við að málinu sé lokið frá þeirra hlið, nema félagið fari aftur af stað með sömu háttsemi.
Nú hefur lögum verið breytt til þess að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur, en nú lúta slíkir samningar íslenskum lögum, ef lánin eru veitt í íslenskum krónum.
Sér ekki að dönsk lög hafi átt að gilda
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segist ekki sjá að dönsk lög hafi átt að gilda og að félagið hafi endilega fylgt dönskum lögum. „Þetta virðist vera einhver tæknileg niðurstaða,“ segir hann.
„Við erum með tölvupósta frá danska fjármálaeftirlitinu sem ekki segist hafa haft eftirlit með starfsemi þessara fyrirtækja, þvert ofan í það sem þeir héldu fram á sínum tíma,“ segir Breki í samtali við Fréttablaðið.
Neytendasamtökin voru mjög sýnileg í umræðu um eCommerce á sínum tíma, en samtökin ráðlögðu neytendum að forðast að stunda viðskipti við félagið.
„Síðan erum við líka með tölvupósta frá umboðsmanni danskra neytenda sem segir að íslensk lög eigi að gilda, þannig að það virðist vera að þetta falli þarna á milli skips og bryggju. Ef hvorki dönsk, né íslensk lög gildi, þá erum við í ansi miklum vanda. Ef að fyrirtæki geti bara skráð sig nánast hvar sem er í heiminum og komið sér undan íslenskum lögum og reglum,“ segir Breki.
Eins og Þórunn Anna bendir á, þá bendir Breki einnig á að það sé búið að stoppa þetta gat í lögunum. „En meginreglan er náttúrulega í neytendarétti að þau lög skuli gilda hvar neytandinn hefur búsetu og það er ekkert hægt að koma sér undan því,“ segir Breki.
Lagatæknilegt mál
„Þetta er rosalega lagatæknilegt mál,“ segir Einar Bjarni Einarsson, lögfræðingur Neytendasamtakanna. „Málið er að þessi dómur lýtur að ákvörðun Neytendastofu sem varða ákveðin atriði. Hendur Neytendastofu eru þar með svolítið bundnar í þessu máli.“
„Staðreyndir málsins eru þær að þau færa sig yfir landsteinana en markaðsefni þeirra er á íslensku, þau eru að ná til íslenskra neytenda, veita lán í íslenskum krónum, skilmálarnir eru á íslensku og það eru ekki margir sem tala það tungumál nema Íslendingar,“ seigir Einar og bætir við að það séu tæknilegu atriðin sem skipti þarna máli.
Einar segir Rómarsáttmálann ekki hafa verið tekinn í gildi þegar starfsemi eCommerce hafi verið í gangi, en í þeim sáttmála kemur fram að ef einstaklingur kaupir vöru eða þjónustu yfir landamæri, þá gildi neytendavernd í því landi sem neytandinn hafði búsetu.
„Lánastarfsemi var aftur á móti undanskilin þarna. Þannig að með viðbót, Róm 1 heitir þetta sem kemur upp úr aldarmótum, að þá var bætt við fjármálaþjónustu. Þessi viðauki hafði ekki verið innleiddur hér á landi,“ segir Einar.