Færa á vanda atvinnulausra yfir á sveitarfélög sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, í óundirbúinni fyrirspurn til Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra á Alþingi í dag.
Guðmundur Ingi sagði hundrað manns fullnýta atvinnuleysisbótarétt sinn og á síðasta ári hafi um þúsund manns dottið út af atvinnuleysisbótum. Tvö ár taki að vinna sér inn bótarétt aftur og „greinilega á að færa þennan vanda ríkisstjórnarinnar yfir á sveitarfélögin,“ sagði Guðmundur Ingi.
Um 500 manns hafi óskað eftir fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar og um 300 á Reykjanesi. Flestir þeir sem missa bótarétt hjá Vinnumálastofnun leiti á náðir borgarinnar og sveitarfélaga. Þau hafi ekki burði til að takast á við þennan vanda. Hann sakaði félags- og barnamálaráðherra um að draga lappirnar í málefnum atvinnulausra.
Þeir sem detta út af bótum eiga sér enga von
Hins vegar hafi ríkisstjórnin ekki verið lengi að því að aðstoða þá „sem hafa borgað sig milljarða króna í arð og vita ekki aura sinna tal,“ sagði Guðmundur Ingi. „Þeir sem detta út af bótum eiga sér enga von um að fá fæði, klæði eða borga af húsnæði,“ bætti hann við.
„Neyðin vex og við verðum að fara að gera eitthvað fyrir þetta fólk. Við getum ekki hent fólki út á guð og gaddinn og sagt við það: Þið fáið ekkert, svo til ekkert, vegna þess að ef þau fara til sveitarfélaganna og annarra aðila hefur einhverjar tekjur þá fáum þau ekkert,“ sagði þingmaðurinn og spurði ráðherra til hvaða ráða hann hygðist grípa til að aðstoða sveitarfélög við að styðja fólk sem missir atvinnuleysisbætur.
Vonast til að kynna aðgerðir á næstu tveimur vikum
Ásmundur Einar sagði verið unnið að því að koma fram með ýmsar aðgerðir til að hjálpa þeim sem eru án atvinnu, í samvinnu við sveitarfélög. „Við höfum verið að vinna að því undanfarnar vikur að forma einhvers konar aðgerðir til þess að ná utan um þessa einstaklinga til þess að aðstoða þá við að komast í virkni og tryggja þeim framfærslu samhliða,“ sagði ráðherra. Hann vonaðist til þess að aðgerðir yrðu tilkynntar á næstu tveimur vikum.

Guðmundur Ingi sagði að í fyrsta sinn væri meira atvinnuleysi hér en á hinum Norðurlöndunum. „Á sama tíma er ekkert vandamál að borga þeim sem hafa fengið milljarða í arð milljarða. Hvernig í ósköpunum stendur á því að það þarf að hjálpa þeim en það er ekki hægt að hjálpa þessum, það sé svo erfitt,“ sagði þingmaðurinn.
Ég hlakka gríðarlega til þegar við getum kynnt slíkar aðgerðir
Ráðherra sagði að ástæða þessa mikla atvinnuleysis sem sé hér á landi nú, en það er rúmlega 12 prósent, sé einkum hve stór þáttur ferðaþjónustan er í íslensku atvinnulífi sem farið hafi illa út úr COVID-19 faraldrinum. Nauðsynlegt sé að ríki og sveitarfélög starfi saman í að leysa vanda þeirra sem misst hafi bótarétt. „Ég hlakka gríðarlega til þegar við getum kynnt slíkar aðgerðir,“ sagði Ásmundur Einar.