„Verndarkerfið sem er samningur sem gerður var við Sameinuðu Þjóðirnar gengur út á að vernda fólk þegar líf þess og limir eru í hættu. Við viljum slá skjaldborg um verndarkerfið fyrir fólk sem fellur undir það kerfi. Vandamálið eru allir hinir,“ sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í viðtali við Bryndísi Haraldsdóttur í dag þegar þau ræddu um málefni útlendinga.

„Fólk sem er í leit að betri lífsgæðum og lífsskilyrðum. Það er erfið staða í mörgum löndum og fólk er að leita sér að betri skilyrðum.“

Jón Gunnarssonar hefur mikið rætt um málefni útlendinga og umsækjenda um alþjóðlega vernd að undanförnu en hann telur að endurskoða þurfi lög um útlendinga vegna breyttra aðstæðna. „Þegar við vinnum þessum lög sem eru í gildi núna voru 300 manns að koma hingað til lands. En núna erum við að horfa frekar á tölur eins og 4500 manns á hverju ári,“ segir Jón sem telur að fólk sem sækist til Íslands til að bæta lífsgæði sín ætti að mæta öðru en þeir sem sækjast eftir vernd.

„Betra væri að greiða fólki sem leitar að betri lífsgæðum leið inn í landið í gegnum dvalar og atvinnu sköpun frekar en undir formerkjum alþjóðlegrar verndar," sagði dómsmálaráðherra.

„Þetta er sameiginlegt vandamál allra Evrópuþjóða. Það er stórkostleg aukning af fólki til dæmis frá Venesúela og Palestínu. Frá Venesúela er mikið af fólki frá Mið-Austurlöndum að koma í gegn,“ sagði hann en Jón og Bryndís töldu að ríkisborgararéttur gengi kaupum og sölum í Venesúela þar sem mörg af vegabréfum þessa fólks séu nýútgefin.

Jón telur að með því að vera með regluverk sem tryggir réttindi umfram það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, þegar sótt er um vernd, myndum við segla sem draga hingað til lands fólk sem vonast til að nýta þessi réttindi í annarlegum tilgangi.

Brottvísanir í samræmi við Schengen

Jón telur að þær brottvísunar sem tíðkast hafa á Íslandi séu í fullu samræmi við það sem birtist í Schengen samninginum um alþjóðlega vernd. „Það er í raun skylda okkar samkvæmt Schengen að framfylgja þessu. Samningur okkar innan Schengen gerir ráð fyrir að þú eigir ekki að sækja um vernd í landi ef þú ert þegar kominn með vernd í öðru landi. Þá ertu kominn í aðstæður sem eru ekki lífsógnandi,“ segir Jón en hann telur að þeir tímafrestir sem hér séu við líði verði til þess að fólk staldri við lengur en þörf krefji.

„Frestirnir eru þannig að þeir eru hvati fyrir fólk,“ segir Jón og útskýrir frekar „Þú færð til dæmis löglærðan fulltrúa hér og málið fær afgreiðslu hjá Útlendingastofnun og ef þú færð synjun þar máttu áfrýja til kærunefndar útlendingamála. Ef þú færð svo aðra synjun þar þá áttu raunverulega að fara af landi brott. En fólk síðan lætur ekki ná í sig og þá færðu á endanum rétt á endurupptöku og þú heldur íbúð þinni og réttindum á meðan þetta fer fram,“ segir Jón sem telur að skoða þurfi lokuð búsetuúrræði þegar kemur að móttöku fólks sem sækir um vernd hér á landi.

Úr flóttamannabúðum sem Útlendingastofnun setti upp í Ásbrú. Dómsmálaráðherra telur að lokuð búsetu úrræði sem þessi séu besta lausnin fyrir fólk sem sækir um vernd hér á landi.
Fréttablaðið/SigtryggurAri

Lokuð búsetuúrræði séu lausnin

Jón segir að lokuð búsetuúrræði fyrir fólk sem sækir um alþjóðlega vernd séu í notkun í mörgum af norðurlöndunum og slíkt úrræði sé eitthvað sem Ísland verði að skoða.

„Við þurfum að horfast í augu við raunveruleikann," sagði hann "Við ætlum að sýna mannúð í okkar aðgerðum. En við getum ekki leyft okkur það að vera með viðbótar segla í kerfinu sem draga hingað fólk af öðrum ástæðum. Við verðum að vera með svipaðar reglur og okkar nágrannaþjóðir,“ sagði Jón en hann telur mannúðarsjónarmið felast í slíkum úrræðum.

„Þessar þjóðir eru með lokuð búsetuúrræði þar sem fólk bíður eftir endursendingu en við erum ekki með þetta,“ sagði Jón og bætti við „Við þurfum að fara að byggja þessi lokuðu búsetuúrræði þar sem fólk getur beðið eftir sínum úrskurði,“ sagði hann.

Máli sínu til stuðnings sagði hann að búsetu úrræði sem þessi séu sett upp til þess að vernda þá einstaklinga sem hingað koma til lands. „Þarna komum við inn á mjög viðkvæman þátt. Það er vitneskja og rannsóknir á skipulögðu mansali á þessu fólki. Þegar fólk fær íbúð út í bæ þá vitum við ekkert um það. Fólk er stundum kostað til Íslands. Með því að taka betur utan um fólkið getum við betur verndað það og vaktað,“ sagði hann en Jón telur að vel væri hægt að byggja slíkt úrræði til dæmis á Ásbrú.

Jón telur að með þessu væri hægt að bregðast við því hættustigi sem Ríkislögreglustjóri lýsti yfir á landamærum Íslands en hættustigið hafi verið sett á aðallega vegna skorts á úrræðum í langtíma og skammtíma búsetu hér á landi.