Gunnar Hrafnsson, formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), segir vandamálið ekki að fá Íslensku óperuna til að setjast niður og gera nýjan samning, heldur að fá Óperuna til að standa við gerðan samning.

Stjórn Íslensku óperunnar sendi frá sér yfirlýsingu í gær um að hún beri fullt traust til Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur óperustjóra og að ásakanir sem fram hafa komið á hendur henni og stjórninni eigi ekki við rök að styðjast. Sagðist stjórnin vilja bjóða FÍH til viðræðna um kjaramál söngvara sem fram koma í sýningum Óperunnar.

Mikillar óánægju gætir meðal klassískra söngvara og fagfólks í óperu vegna Íslensku óperunnar. Félagsmenn Klassís telja það endurtekið hafa sýnt sig að óperustjóri og stjórn beri ekki hag óperusöngvara fyrir brjósti og lýstu því yfir fullkomnu vantrausti á bæði stjórn og óperustjóra. Vantraustsyfirlýsingin kom í kjölfar sýknudóms í máli Þóru Einarsdóttur gegn Íslensku óperunni vegna samningsbrota af hálfu Óperunnar í tengslum við æfingar og uppfærslu á Brúðkaupi Fígarós í Þjóðleikhúsinu árið 2019. Hægt er að lesa nánar um málið í fréttaskýringu Fréttablaðsins.

„Krafist er launaleyndar til að einn viti ekki hvað annar fær og ef einhver kvartar þá eiga þau ekki afturkvæmt á svið Íslensku óperunnar.“

Ekkert annað en gerviverktaka

„Fyrir okkur í FÍH er vandamálið ekki að fá Íslensku óperuna til að setjast niður og gera nýjan samning, vandamálið er að fá Íslensku óperuna til að standa við gerðan samning,“ segir Gunnar í samtali við Fréttablaðið.

Söngvarar sem fram komu í sýningu Íslensku Óperunnar hafa einnig bent á þetta. Andri Björn Róbertsson sem lék Fígaró í Brúðkaupi Fígarós sagði yfirlýsing Steinunnar Birnu óperustjóra, um að hún vilji setjast niður með fulltrúum söngvara til að sama um hvernig samningagerðum í framtíðinni yrði háttað, væri algjörlega út úr kú.

„Í ljósi vantrauststillögu er engin ástæða til að setjast niður með þeim. Traustið er farið. Ef óperustjóri hefur einhvern áhuga á samningamálum söngvara þá gæti hún bara byrjað á því að fara eftir samningi óperunnar við FÍH, sem er í gildi,“ sagði Andri Björn.

Aðspurður um samning söngvara við Íslensku óperuna segir Gunnar hann ekkert annað en gerviverktökusamning.

„Við töpum í héraðsdómi vegna þess að dómurinn metur þetta sem samning tveggja aðila á jafnréttisgrundvelli, en hver er raunveruleikinn? Gerður er verktakasamningur, sem er ekkert annað er gerviverktaka, á svig við gagnkvæman samning FíH og ÍÓ, krafist er launaleyndar til að einn viti ekki hvað annar fær og ef einhver kvartar þá eiga þau ekki afturkvæmt á svið Íslensku óperunnar, þetta vita söngvararnir.“

Stjórn Íslensku óperunnar.
Fréttablaðið/Samsett mynd

Þörf á gagnsæi í rekstri Óperunnar

Fréttablaðið greindi frá því nú á dögunum að kona í aðalhlutverki í sýningu ÍÓ hafi fengið lægri laun en karl í meðalstóru hlutverki. Gunnar segir samningaaðferð Óperunnar meinsemd varðandi jafnlaunasetningu kynjanna. „Dæmin sanna það einfaldlega.“

Aðspurður hvort FÍH hyggst áfrýju í máli Þóru gegn Óperunni segir Gunnar það alveg mögulegt.

„Við íhugum að sjálfsögðu áfrýjun og sú ákvörðun þarf að liggja fyrir innan tveggja vikna. Í húfi er að í Óperunni verði tryggð mannsæmandi vinnuskilyrði og gagnsæi í starfseminni.“

Þóra Einarsdóttir stefndi Íslensku óperunni fyrir samningsbrot og vangoldin laun.