Ágreiningur er um hvernig utankjörfundaratkvæði eigi að berast á talningarstaði, að sögn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, sem situr í undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar.

Aðspurður hvort það sé í samræmi við lög að utankjörfundaratkvæði berist í óinnsigluðum pappakössum segir hann búið að reyna að vekja athygli á þessu vandamáli lengi. „Það er ekkert nýtt í þessu, því miður,“ segir Björn.

Fram kom í svari Inga Tryggvasonar, formanns yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, um utankjörfundaratkvæði, að þau hafi borist frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í óinnsigluðum pappakassa.

„Við höfum vakið athygli á því áður að atkvæðin hafa verið í opnum pappakössum hjá sýslumanni sem er vandamál. Það hefur ekki verið hlustað mjög mikið á okkur hvað svoleiðis ábendingar varðar. Þó ekki sé endilega hægt að komast í atkvæðið sjálft þá er hægt að hnika við atkvæðunum sjálfum, öllu umslaginu fram og til baka,“ segir Björn og bætir við að þetta sé vandamál óháð Norðvesturkjördæmi. Í heildina litið sé það vandamál hvernig farið er með utankjörfundaratkvæði.

„Ef þetta er í pappakassa og öll umslögin eru enn þá lokuð og svo framvegis þá er það allt í lagi, þá er innsigli þar,“ segir Björn. Það sé þó aðeins á reiki í hvaða ástandi umslögin séu, sums staðar sé búið að opna til að skoða inn í og annars staðar ekki.

Björn segist ekki vita hvort sjálf umslögin utan um utankjörfundaratkvæði í Norðvesturkjördæmi hafi verið innsigluð og óopnuð. Í svari Inga segir þó að ytri umslög utankjörfundaratkvæða hafi ekki verið opnuð áður en þau bárust kjördeildum.

Vinna nefndarinnar lýtur að margvíslegum atriðum og margar spurningar sem leita þurfi svara við, segir Björn. „Það er kannski lykilatriðið, við erum með mjög mörg mál,“ bætir hann við og bendir á að þetta snúist ekki eingöngu um að skoða hvort kosningarnar séu gildar eða ekki. Um mögulega niðurstöðu nefndarinnar segir hann að enn séu margir möguleikar í stöðunni í mismunandi málum.