Melanie Croce sem vinnur hjá Seal Rescue Ireland segir samtökin himinlifandi að heyra fregnir frá Íslandi um rostunginn Valla eða Wally eins og hann er kallaður fyrir utan landsteinana.

„Rostungurinn Valli er ansi skrautlegur karakter sem við höfum fylgst með í sex mánuði. Við erum himinlifandi að heyra að hann sé á lífi og líði vel og sé á leiðinni á heimaslóðir,“ segir Melanie í samtali við Fréttablaðið en þau telja Valla vera frá Grænlandi.

Valli er um fjögurra til fimm ára gamall Atlantshafsbrimill og vegur 800 kíló. Hann er einhleypur unglingur og hefur ekki fundið sér maka.

Hann sást fyrst við Valentia eyju við Kerry-sýslu við Írlandsstrendur síðastliðinn mars og hefur hann ferðast víða um Evrópu síðustu sex mánuði. Hann hefur meðal annars komið við í Wales, Cornwall, á Spáni, Frakklandi og Scilly eyjar við Cornwall og eyddi svo síðustu vikum sumarsins á Írlandi.

Eftir að Valli hvarf frá Crookhaven í vesturhluta Cork-sýslu heyrðist ekkert af honum í 22 daga, þ.e. þangað til hann birtist í Höfn í Hornarfirði.

„Satt að segja þá óttuðumst við það versta, að hann hefði lent í neti eða orðið fyrir báti. Það eru svo margar hættur,“ segir Melanie. Þau glenntu sannarlega upp augun af undrun þegar þau sáu myndir af rostungi á Íslandi sem líktist Valla.

„Við áttum ekki orð þegar við sáum myndirnar frá Íslandi. Þá fórum við skoða framhreifana á honum og tókum eftir örunum og vorum þá sannfærð um að þetta væri Valli.“

Seal Rescue Ireland bar kennsl á Valla með því að skoða örin á framhreifum hans.
Mynd: Hafrún Eiríksdóttir

Valli hrifinn af dýrum snekkjum

Melanie segir að Valli eigi til að halda sig í höfnum þar sem er mikið að gera.

„Við teljum að það sé vegna þess að rostungar eru almennt mjög félagslyndir í villtri náttúru. Rostungar eru vanir að klifra upp á hafís og þess vegna er hann alltaf að reyna að klifra upp á hlutina sem komast næst því eins og smábáta og gúmmíbáta.“

Segir hún Valla vera með dýran smekk.

„Hann klifraði alltaf upp á dýrustu og fínustu snekkjurnar eigendum til mikils ama. Hann meira að segja sökkti og hvolfdi nokkrum bátum á ferðalagi sínu um hafnirnar.“

Atlantshafsrostungar í hættu

Sea Rescue Ireland hefur í samvinnu við önnur samtök í Bretlandi og Evrópu reynt að rýma svæði til að veita honum góða áningarstaði til að hvíla sig fyrir löng ferðalög. Það hefur greinilega virkað vel þar sem Valli lagði af stað í eina lengstu ferð sína alla leið til Íslands.

„Heimskautategundir sem fylgja gjarnan hafísnum eru í hættu við að missa heimkynni sín vegna loftslagsvárinnar. Mikil óvissa er um framtíð þessara dýra. Ef við viljum vernda dýr eins og Valla verðum við að einblína á umhverfismálin og gera okkar besta að veita dýrum á flótta öruggan griðarstað,“ segir Melanie en hún telur að við munum sjá fleiri dýr eins og Valla á okkar slóðum í framtíðinni.

„Við megum ekki gleyma að sýna þessum dýrum virðingu og halda okkar fjarlægð til að valda þeim ekki óþarfa streitu. Það eru tæplega 22 þúsund Atlantshafsrostungar eftir í heiminum og þeim fækkar með hverju ári vegna ofveiði.“