Kamala Devi Har­ris, 55 ára öldunga­deildar­þing­maður frá Kali­forníu, er fram­bjóðandi Demó­krata­flokksins til vara­for­seta Banda­ríkjanna. Joe Biden for­seta­fram­bjóðandi til­kynnti val sitt á þriðju­dag og kom það fæstum á ó­vart. Hann hafði áður gefið það út að hann myndi velja konu og þótti Har­ris lík­legust.

Tíma­setning til­kynningarinnar kemur heldur ekki á ó­vart. Vika er í lands­fund Demó­krataf lokksins og val á vara­for­seta­efni gefur fram­bjóð­endum á­vallt svo­lítið trukk, líkt og fundurinn sjálfur.

Biden hefur verið að dala ör­lítið í könnunum undan­farið, en hefur enn­þá af­gerandi for­ystu. Vonast er til að hún verði enn meiri eftir lands­fundinn sem að þessu sinni er haldinn í Milwaukee, stærstu borg Wisconsin, sem er eitt af helstu bar­áttu­fylkjunum í kosningunum. Fundurinn verður þó með ó­hefð­bundnu sniði og að stærstum hluta fjar­fundur.

Ættuð frá Ind­landi og Jamaíka

Valið á Har­ris brýtur blað í stjórn­mála­sögu Banda­ríkjanna því hún er fyrsta svarta konan í fram­boði fyrir annan hvorn stóra flokkinn. Hún er einnig fyrsta asíska konan í fram­boði, en móðir hennar er ind­versk að upp­runa og faðir hennar frá Karíba­eyjunni Jamaíka. Har­ris er hins vegar fædd í borginni Oak­land og alin upp í Kali­forníu og Quebec í Kanada en for­eldrar hennar skildu þegar hún var sjö ára gömul.

Har­ris stefndi á lög­fræði og nam við Howard há­skólann í Was­hington og Kali­forníu­há­skólann í San Francisco. Árið 1990 hóf hún störf sem sak­sóknari í Oak­land og á næstu árum vann hún sig upp met­orða­stigann í kerfinu.

Mikill stuðningur innan flokks

Árið 2003 bauð hún sig fram til borgar­sak­sóknara San Francisco og naut stuðnings margra stór­bokka í Demó­krata­flokknum. Þar á meðal öldunga­deildar­þing­mannsins Diane Fein­stein, þing­mannsins og nú­verandi for­seta neðri­deildar Nanci Pelosi, og borgar­stjórans Willi­e Brown sem jafn­framt er fyrr­verandi sam­býlis­maður Har­ris.

Í kosninga­bar­áttunni fékk Har­ris þunga sekt fyrir að hafa eytt langt um­fram leyfi­legt há­mark í aug­lýsingar og viður­kenndi sök í því máli. Engu að síður sigraði hún kosningarnar og sjö árum síðar var hún kjörin aðal­sak­sóknari Kali­forníu­fylkis.

At­hygli vekur að meðal þeirra sem styrkt hafa fram­boð Har­ris í gegnum tíðina eru Donald Trump Banda­ríkja­for­seti og I­vanka Trump dóttir hans.

Har­ris var orðuð við em­bætti ríkis­sak­sóknara Banda­ríkjanna og stöðu hæsta­réttar­dómara, en á­kvað frekar að taka beinan þátt í stjórn­málum á þinginu. Þegar hún til­kynnti um fram­boð til öldunga­deildarinnar árið 2016 fylktu allir stór­bokkarnir í Demó­krata­flokknum í Kali­forníu sér á bak við hana og kannanir sýndu yfir­burða­fylgi, sem hún á endanum hlaut í kosningunum. Mót­fram­bjóðandi hennar var Loretta Sanchez, þing­maður Demó­krata, en Repúblikanar höfðu þá gefist upp á Kali­forníu.

Ýmis mál hafa komið upp í em­bættis­tíð Har­ris sem sak­sóknara sem hafa valdið titringi. Meðal annars að­gerða­leysi hennar gagn­vart vísinda­manni á rann­sóknar­stofu lög­reglunnar sem hafði stolið fíkni­efnum. Um 600 dóms­mál glötuðust vegna þessa starfs­manns. Har­ris þótti þó al­mennt hörð í horn að taka og sak­fellingar­hlut­fall hækkaði um meira en 10 prósent.


Rimmur við Biden

Árið 2014 giftist Har­ris Dou­glas Em­hoff, lög­fræðingi sem starfar fyrir skemmtana­iðnaðinn í Kali­forníu. Saman eiga þau engin börn en hann á tvö úr fyrra hjóna­bandi. Meðal helstu á­huga­mála Har­ris er póker en hún þykir slyngur spilari.

Í janúar 2019 til­kynnti Kamala Har­ris um fram­boð sitt til for­seta Banda­ríkjanna. Hún þótti standa sig vel í kapp­ræðum og mældist með allt að 20 prósenta fylgi. Meðal annars skaut hún föstum skotum á Joe Biden, en hældi Berni­e Sanders. Þegar á leið dró úr fylgi hennar, sér í lagi eftir harðar kapp­ræður við Joe Biden í ágúst, og festist í 5 til 8 prósentum. Þá var ljóst að for­valið yrði kapp­hlaup milli Biden, Sanders og Eliza­beth War­ren. Í desember 2019, áður en fyrsta for­valið í Iowa fór fram, dró Har­ris fram­boð sitt til baka.

Sumir hafa líkt Har­ris við eins konar „kven­kyns Obama“ en hún kann illa við það. Fram­boð hennar hefur eðli málsins sam­kvæmt byggst á rétt­lætis­málum og um­bótum í dóms­kerfinu, fremur en til dæmis heil­brigðis­málum sem Obama var þekktur fyrir.

Snemma fóru skýr­endur að orða hana við fram­boð til vara­for­seta með Biden og í apríl síðast­liðnum sagðist hún vilja það. Í kjöl­farið var hún talin lík­legust til þess að hreppa til­nefninguna.

Með valinu á Har­ris vonast Biden til þess að fá fleiri konur á kjör­stað og sér­stak­lega úr minni­hluta­hópum. Það gæti haft tölu­verð á­hrif í hinu svo­kallaða ryð­belti, Penn­syl­vaníu, Michigan og Wisconsin, en einnig í Suður­ríkjunum, þá helst Norður-Karó­línu og Georgíu. Kali­forníu þarf hann ekki að hafa á­hyggjur af.