Undan­farin ár hefur lífið legið upp á við hjá Valdimari Guð­munds­syni söngvara. Hann braust út úr viðjum slæms á­vana, kynntist ástinni og eignaðist fjöl­skyldu. Þar að auki hefur hann haft nóg að gera í tón­listinni og hefur slegið í gegn í nýju hlað­varpi. Valdimar er í ítar­legu helgar­við­tali í helgar­blaði Frétta­blaðsins.

Valdimar og Anna Björk Sigur­jóns­dóttir, hjúkrunar­fræðingur, kynntust á Tinder, eins og mörg pör þessi misserin, en þau höfðu reyndar sést einu sinni áður við fremur ó­hefð­bundnar að­stæður.

„Ég var eigin­lega alveg búinn að gefast upp á Tinder. Það var ekkert að gerast,“ segir hann um þennan tíma. „Síðan allt í einu poppaði upp þessi dama og ég á­kvað að byrja að spjalla við hana. Þá kom í ljós að hún hafði fengið mig til þess að syngja í jarðar­för afa hennar hálfu ári fyrr. Ég minntist þess þá vel að hafa séð hana þá, orðið heillaður og langað til að kynnast henni betur. Ætli ör­lögin hafi ekki raðað þessu svona upp?“

Valdimar segir barn­eignina hvorki hafa verið fyrir fram á­kveðna né slys. Þau höfðu rætt þetta mikið og barn­eignin mátti gerast. Fæðingin gekk einnig vel.

„Ég var orðinn svo­lítið stressaður eftir að hafa heyrt hryllings­sögur af tveggja sólar­hringa fæðingum. Þegar Anna sagði að við þyrftum að fara niður á fæðingar­deild fór ég í annan heim og byrjaði að þramma um í­búðina til þess að reyna að muna eftir öllu sem við þurftum að taka með okkur. En svo tók þetta ekki nema tvo klukku­tíma,“ segir hann. „Þetta var mikill hasar í stuttan tíma. Ég reyndi að vera til staðar og aðal­lega að vera ekki fyrir.“

Að­spurður um hvort hann ætli að reyna að fá soninn til að fá á­huga á tón­list, eins og faðir hans gerði, segir Valdimar svo vera. Strákurinn verði þó að fá að finna sinn eigin far­veg í lífinu. „Hann verður að minnsta kosti að halda með Kefla­vík og Manchester United,“ segir Valdimar á­kveðinn.