Borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, Sanna Magdalena Mörtudóttir, leggur fram fjölda tillagna á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar sem fer fram klukkan 14 í dag.

Meðal þess sem Sanna leggur til er að framkvæmd verði könnun á umfangi útvistunar, verktakasamninga við launafólk og starfsmannaleiga í stofnunum og fyrirtækjum á vegum Reykjavíkurborgar og félögum sem borgin á hlut að. Í greinargerð með tillögunni er vísað til þess að undanfarin ár hafi einkafyrirtæki nýtt sér starfsmannaleigur og verktakasamninga til að skerða rétt launafólks, færa það frá þeim réttindum sem hinn hefðbundni vinnumarkaður tryggir og út í óvissu tímabundinna verktakasamninga.

Einnig verða á fundinum teknar fyrir nokkrar tillögur Sósíalistaflokksins um stofnun borgarasamtaka, þar á meðal stofnun félags strætófarþega, stofnun félags skjólstæðinga velferðarsviðs og félags leigjenda hjá Félagsbústöðum.

Í greinargerð með síðastnefndu tillögunni segir að leigjendur Félagsbústaða búi við mikið valdaleysi og eigi erfitt með að hafa áhrif á þjónustu félagsins. Með því að stuðla að stofnun félags leigjenda og tryggja leigjendum áheyrnarrétt hjá stjórn Félagsbústaða megi auka vald þeirra hjá Félagsbústöðum. Mjög sambærileg rök eru í greinargerð með tillögu flokksins um félag strætófarþega.

Sjá einnig: Vilja banna laun fyrir fundar­setu

Auk sjö tillagna fulltrúa Sósíalistaflokksins leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögur sínar um aðgerðir í húsnæðismálum sem varða meðal annars byggingalóðir í Örfirisey, á BSÍ-reitnum, Keldum og í Úlfarsárdal.

Nýr borgarfulltrúi Flokks fólksins vill að fram fari rekstrarúttekt og verður tekin afstaða til þeirrar tillögu á fundinum í dag. Þá leggur Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, fram tillögu um niðurfellingu byggingarréttargjalds en ein tillagna Sósíalistaflokksins varðar einmitt sama mál.

Búast má við löngum fundi í borgarstjórn í dag enda 54 dagskrárliðir. Flestir þeirra eru kosning fulltrúa í nefndir og ráð borgarinnar auk fulltrúa í tíu hverfisráð sem starfa í hverfum borgarinnar.

Þá verður kosið í stjórnir fyrirtækja í eigu borgarinnar: kjósa þarf fimm menn í stjórn Orkuveitunnar og jafn marga í stjórn Faxaflóahafna. Þrír verða kosnir í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Þá kýs Reykjavíkurborg einn fulltrúa í stjórn Sorpu og annan í stjórn Strætó en fyrirtækin eru bæði rekin í byggðasamlagi með öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Tillögur borgarfulltrúa á dagskrá fundarins

Frá Miðflokknum um niðurfellingu byggingarréttargjalds

Frá Sjálfstæðisflokknum um aðgerðir í húsnæðismálum

Frá Flokki fólksins um rekstrarúttekt á Félagsbústöðum

Frá Sósíalistaflokknum um stofnun félags strætófarþega

Frá Sósíalistaflokknum um stofnun félags skjólstæðinga velferðarsviðs

Frá Sósíalistaflokknum um stofnun félags leigjenda hjá Félagsbústöðum

Frá Sósíalistaflokknum um afnám þóknunar fyrir nefndarfundasetu starfsmanna borgarinnar á vinnutíma

Frá Sósíalistaflokknum um könnun á umfangi útvistunar og áhrifum hennar á kjör launafólks

Frá Sósíalistaflokknum um afnám áhrifa byggingarréttargjalds á byggingarkostnað félagslegra íbúða og íbúða sem byggðar eru af óhagnaðardrifnum leigufélögum

Frá Sósíalistaflokknum um breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar