Pétur Hall­dórs­son, for­maður Ungra um­hverfis­sinna, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að það besta sem al­menningur geti gert til að hafa já­kvæð á­hrif í Amazon skóginum sem nú brennur, sé að stuðla að vald­eflingu ungs fólks og sam­tals milli um­hverfis­verndar­hópa þvert á landa­mæri.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá geisar nú sögu­legur fjöldi skógar­elda í regn­skóginum og hefur skógurinn aldrei verið eins undir­lagður eldi. Út­breiðslu eldanna má rekja til efna­hags­stefnu ríkis­stjórnar Jair Bol­sonaro, sem gefið hefur bændum lausan tauminn til að ryðja land til ræktunar.

Gríðar­leg um­ræða hefur kviknað um eldana á sam­fé­lags­miðlum og hafa stór­stjörnur á borð við Leonar­do DiCaprio, Ari­önu Grande og Christiano Ron­aldo vakið at­hygli á eldunum á miðlunum. Hafa margir hér­lendis einnig lýst yfir á­hyggjum af á­stæðunni og velta ein­hverjir fyrir sér hvað sé hægt að gera.

Spurður hvað hinn al­menni Ís­lendingur getur gert vegna á­standsins í Amazon segir Pétur stuðning við um­hverfis­verndar­sam­tök, vald­eflingu og al­þjóða­sam­starf meðal mikil­vægustu þáttanna, þó um sé að ræða flókna spurningu. Hann nefnir sem dæmi sam­starf Ungra um­hverfis­sinna við samtök ungmenna af frumbyggjaþjóðum í Amazon-frumskógi Perú, en sam­tökin hafa að mark­miði að stuðla að vald­eflingu ungs fólks sem þar býr.

Á­skoranirnar keim­líkar á norður­slóðum og í Amazon

„Það helsta sem við þurfum í rauninni að gera er að efla þetta sam­tal. Að taka þátt eða styðja við um­hverfis­verndar­sam­tök. Þetta er auð­vitað svo langt í burtu og er svo stórt að þá er al­þjóða­sam­starf gras­róta ein­stak­lega mikil­vægt, sem svona stutta, ein­falda svarið,“ segir Pétur.

Hann segir á­skoranirnar sem um­hverfis­verndar­sam­tök standi fyrir í Suður-Ameríku keim­líkar þeim á­skorunum sem um­hverfis­verndar­sam­tök á norður­hveli jarðar standi fyrir. Svipaðir hlutir og í Amazon séu í gangi til að mynda í Kanada, Alaska og í Rúss­landi þar sem gróður­eldar ógna heimilum fólks.

„Þetta eru sam­eigin­legar á­skoranir. Til dæmis í grunninn til að leysa þessi vanda­mál er vald­efling ungs fólks einn lykil­þáttur í því. Og til að ná því fram þarf að vera öflugt net um­hverfis­verndar­sam­taka til að geta átt þetta sam­tal,“ segir Pétur. Hann segir Unga um­hverfis­sinna nú vinna að næstu skrefum og ætli sér að efla sam­starfið með sam­tökunum frá Perú.

„Svo er annar þáttur og grund­vallar­vanda­mál hvernig komið hefur verið fram við fólkið sem býr þarna al­mennt, ekki bara í Brasilíu. Til dæmis höfum við heyrt það frá Perú að stjórn­völd láti sig þetta fólk al­mennt litlu varða,“ segir Pétur. „Að styðja vald­eflingu ungs fólks og tæki­færi til handa þeim getur þess vegna tekið á rót vandans,“ segir Pétur.