Guðjón Ingi Sigurðarson
Sunnudagur 19. janúar 2020
18.00 GMT

Líkt og í skák er sá hæfi­leiki að geta séð marga leiki fram í tímann á­kaf­lega mikil­vægur í valdatafli stjórnmálamanna. Nýjasti leikur Vladímír Pútín á skák­borði rúss­neskra stjórn­mála sýnir hæfi­leika hans og hefur kallað á vangaveltur stjórnmálaskýrenda hvert hann stefnir.

Í ræðu á löggjafarþingi Rússlands tilkynnti Pútín óvænt að hann vildi breytingar á stjórnarskrá landsins. Færa yrði völd frá forsetaembættinu yfir til þingsins og annarra stofnana, þar á meðal valdið til þess að útnefna forsætisráðherra, sem hefur hingað til verið í höndum forsetans, og að ríkisráð landsins yrði gert valdameira.

Einungis þremur klukkustundum síðar hafði Dímítrí Med­vedev, sem verið hafði for­sætis­ráð­herra frá árinu 2012, sagt af sér.

Flestir eru vissir um að til­kynning for­setans sýni að hann hyggist ekki setjast í helgan stein árið 2024 þegar hann þarf, sam­kvæmt nú­gildandi stjórnar­skrá, að láta af völdum. Slíkt myndi enda stinga í stúf við per­sónu­leika hans, enda hefur Pútín verið þekktur fyrir allt annað en lát­leysi í gegnum árin.

Þvert á móti séu breytingarnar hugsaðar til þess styrkja ákveðin embætti innan stjórnkerfisins á kostnað forsetaembættisins. Embætti sem hann hyggist setjast í þegar valdatíð hans lýkur árið 2024, og stjórna þannig landinu áfram.

Tvö em­bætti hafa þar verið nefnd sér­stak­lega til sögunnar og þykja lík­legastur við­komu­staður rúss­neska for­setans, sem er sá þaul­setnasti frá því að Jósef Stalín drottnaði yfir Sovétríkjunum.

Kaldrana­leg skila­boð til samstarfsmanns

Á­kvörðun Dímítrí Med­vedev, for­sætis­ráð­herra Rúss­lands, að skila inn stjórnar­um­boði sínu kom mörgum á ó­vart. Raunar svo mikið á ó­vart að bæði BBC og In­depent hafa það eftir heimilda­mönnum innan ríkis­stjórnarinnar að aðrir ráð­herrar hafi ekki vitað af því að Med­vedev hafi á­kveðið að segja af sér.

Á­kvörðunina til­kynnti hann strax í kjöl­farið á því að Vla­dímir Pútín , for­seti landsins, kynnti hug­myndir sínar um breytingar á stjórnar­skrá landsins.

„Þessar breytingar munu ekki einungis ger­breyta stjórnar­skránni heldur einnig jafn­væginu á milli fram­kvæmda­valdsins, dóms­valdsins og lög­gjafar­valdsins,“ sagði Med­vedev þegar hann til­kynnti á­kvörðun sína. „Í því sam­hengi er það aug­ljóst að ríkis­stjórnin þurfi að gefa for­setanum svig­rúm til þess að gera þær breytingar sem hann telur sig þurfa að gera.”

Við sama tæki­færi þakkaði Pútín Med­vedev fyrir sam­starfið en sá þó tæki­færi til að snupra for­sætis­ráð­herrann ör­lítið:

„Það náðist ekki að gera allt, en það gengur ekki alltaf allt upp.“

Þetta kann að hljóma sak­leysis­lega en skila­boðin þykja þó kaldrana­leg í garð sam­verka­manns for­setans til tveggja ára­tuga, en þeir tveir hafa starfað náið saman frá því að Pútín varð fyrst for­seti árið 2000.

Putin og Medvedev hafa verið nánir undanfarna tvo áratugi.
Fréttablaðið/AFP

Þegar Pútín settist fyrst á for­seta­stól var Med­vedev for­sætis­ráð­herra. Þegar Pútín þurfti svo að láta af em­bætti árið 2008, eftir að hafa setið tvö kjör­tíma­bil í röð, skiptust þeir á em­bættum. Med­vedev sat þá sem for­seti þangað til þeir skiptust aftur á em­bættum árið 2012.

Med­vedev var þó yfir­leitt talinn vera lítið annað en um­sjónar­maður fyrir Pútín; verk­færi sem gerði það sem Pútín sagði honum að gera. Hann hafði þar til í vikunni verið talinn lík­legur til þess að setjast aftur í for­seta­stól árið 2024 og hefur því verið fleygt fram að af­sögn hans kunni að koma til vegna ó­á­nægju með að Pútín hafi ætlað að minnka völd hans sem for­seta.

Med­vedev mun þó ekki sitja auðum höndum nú þegar hann hefur látið af em­bætti en Pútín skipaði hann í öryggis­ráð landsins, þar sem hann verður næst­ráðandi for­setans.

Tryggir sér á­fram­haldandi völd

Sam­kvæmt nú­gildandi stjórnar­skrá landsins mun Pútín þurfa láta af völdum árið 2024. Fyrir­hugaðar breytingar á stjórnar­skránni munu ekki breyta því. Þvert á móti myndu breytingarnar tak­marka setu for­seta í em­bætti við tvö kjör­tíma­bil, auk þess sem ýmis völd for­setans yrðu færð til.

„Í raun er verið að færa vald frá for­seta­em­bættinu yfir til lög­gjafar­valdsins,“ skrifaði Margarita Simony­an, yfir­maður rúss­nesku sjón­varps­stöðvarinnar RT og sagði að það myndi styrkja lýð­ræðið í landinu.

Þeir sem horfa á málin gagn­rýnni augum telja sig hins vegar sjá að Pútín sé farinn að hugsa lengra fram í tímann, hann sé að tryggja sér á­fram­haldandi völd eftir að hann stígur úr for­seta­stóli.

Þeirra á meðal er Alexei Naval­ny, leið­togi stjórnar­and­stöðunnar, sem telur þetta sýna að Pútín ætli sér ekki að láta af völdum árið 2024, þegar hann þarf lögum sam­kvæmt að láta af em­bætti.

„Niður­stöður úr ræðu Pútín: Hvaða hálf­vitar (og/eða glæpa­menn) eru það sem hafa sagt að Pútín muni láta af em­bætti árið 2024?“ skrifaði Naval­ny eftir til­kynninguna og vísar þar til þess að arf­taki Pútín í for­seta­em­bættinu mun ekki verða jafn valda­mikill og Pútín hefur verið.

Valdatilfærslur Putin þykja benda til þess að hann ætli sér ekki að láta af völdum.
Fréttablaðið/EPA

Mun hann sitja fyrir lífs­tíð?

Þau tvö embætti sem helst hefur verið rætt um að Pútín muni taka að sér eru að vera formaður öryggisráðs Rússlands, eða formaður ríkisráðs Rússlands.

Með því að nefna þessar tvær stöður velta stjórn­mála­skýr­endur því fyrir hvort að Pútín ætli sér að leggja upp í svipaða veg­ferð og fyrrverandi for­seti fyrrum Sovét­lýð­veldisins Kasakstan, Nur­sultan Nazar­ba­yev.

Nazar­ba­yev lét af em­bætti í mars síðast­liðnum og tók við Öryggis­ráðs Kasakstan til lífs­tíðar, eftir að hafa gefið því stóraukin völd, og þannig haldið völdum sínum. Pútín er í dag for­maður rúss­neska öryggis­ráðsins, og þegar Med­vedev sagði af sér var hann, eins og áður segir skipaður full­trúi og næst­ráðandi í ráðinu.

Pútín hefur einnig lýst yfir mikilli á­nægju með störf og árangur ríkiss­ráðsins, sem er kannski ekki skrýtið þar sem það var hann sjálfur sem kom því á fót.

Með stjórnar­skrár­breytingunum gæti hann því verið að efla þessi tvö ráð áður en hann tekur sjálfur við þeim að lokinni for­seta­tíð sinni. Hvort að hann skipi sig hæst­ráðanda annars hvors þeirra til lífs­tíðar verður tíminn að leiða í ljós.

Putin skipaði Mikhail Mishustin, ríkisskattstjóra Rússlands, forsætisráðherra nokkrum klukkustundum eftir afsögn Medvedev.
Fréttablaðið/AFP

Þjóðar­at­kvæða­greiðsla sem skiptir litlu máli

Pútín hefur nú þegar skipað nýjan for­sætis­ráð­herra, Mik­hail Mishustin, ríkis­skatt­stjóra. Ein­hverjir höfðu talið að sá sem tæki við sem for­sætis­ráð­herra myndi gefa til kynna hvern Pútín teldi vera þóknan­legur sem arf­taki. Mis­hutsin þykir þó ó­lík­legt for­seta­efni.

Skipunin hefur því varpað litlu ljósi á hvað tekur við árið 2024.

Strax að lokinni til­kynningu Pútín um stjórnar­skrár­breytingarnar sagði Ella Pam­filova, yfir­kjör­nefndar Rúss­lands, við Inter­fax sjón­varps­stöðina að nefndin gæti haldið þjóðar­at­kvæða­greiðsluna hve­nær sem er. „Það er jú vinnan okkar,“ sagði hún. Hún sé þó ekki viss um að málið muni ná svo langt.

Kannski það skipti rúss­nesku þjóðina samt ekki miklu máli, en hún hefur fengið að reyna það á eigin skinni að niður­stöður rúss­neskra kosninga eru ekki alltaf í sam­ræmi við úr­slit þeirra.

Athugasemdir