Síaukin pressa er á Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, að segja af sér sem forsætisráðherra. Þingmenn breska Íhaldsflokksins eru sagðir íhuga að snúast gegn formanni sínum og forsætisráðherra, en ráðherrar í ríkisstjórn hennar eru sagðir hafa lagst á ráðin gegn henni á undanförnum vikum. Breskir fjölmiðlar kalla baktjaldamakk ráðherranna „valdarán“.

Ýmsar fréttir hafa birst í breskum fjölmiðlum í dag þar sem því er haldið fram að May sé undir mikilli pressu að segja af sér. Breska ríkisútvarpið hefur eftir ónafngreindum en háttsettum þingmanni Íhaldsflokksins að margir telja að afsögn May gæti aukið stuðning við útgöngusamning forsætisráðherrans sem hefur hingað til verið algjörlega hafnað af breska þinginu.

The Sunday Times fjalla svo um launráð ráðherra í ríkisstjórninni um að koma May frá, og fullyrðir að David Lidington, eiginlegur varaforsætisráðherra, er sagður hafa aflað sér stuðnings nokkurra ráðherra sem hyggjast óska eftir afsögn May á ríkisstjórnarfundi á morgun.

Tim Shipman, aðalþingfréttaritari Sunday Times og höfundur fréttarinnar sem birtist í morgun, segir jafnframt á Twitter-síðu sinni að Micheal Gove, sem nú er umhverfis- og landbúnaðarráðherra, hafi einnig sjónir á forsætisráðherrastólnum, komi til afsagnar May. Skrifstofa forsætisráðherrans hefur neitað því að til standi að May segi af sér.

Öll spjót virðast beinast að May, en ofboðslegur fjöldi fólks safnaðist saman á götum Lundúna í gær til að krefjast þess að þjóðaratkvæðagreiðsla um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu yrði endurtekin. Talið er að rúmlega ein og hálf milljón hafi komið saman og krafist endurtekningar á kosningunni örlagaríku. Hér fyrir neðan má sjá myndband frá BBC sem sýnir mótmælin úr lofti.