Ný drög að verkáætlun sem verktakinn í Vaðlaheiðargöngum hefur skilað gerir ráð fyrir því að gögnin verði ekki opnuð á þessu ári, eins og stefnt hefur verið að. Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segist vera ósáttur við framvindu verksins eftir að slegið var í gegn. Í áætluninni kemur fram að til standi að opna göngin um miðjan janúar á næsta ári.

Í apríl í fyrra var slegið í gegn; síðasta haftið sprengt í Vaðlaheiðargöngum. Á þeim tímapunkti var gert ráð fyrir að eftirvinnslan tæki fimmtán mánuði, kannski sextán. Það hefði þýtt að göngin yrðu opnuð í júlí eða ágúst á þessu ári.

Löngu er nú orðið ljóst að af því verður ekki. Valgeir segir að samkvæmt verkáætlun, sem hann tekur fram að hafi ekki verið samþykkt af Vaðlaheiðargöngum hf., sé gert ráð fyrir að göngin verði opnuð um miðjan janúarmánuð. 

Kallað verður eftir skýringum

Valgeir segist ekki hafa fengið skýringar á töfunum. „Ég er óánægður með verkframvinduna eftir gegnumslagið. Hún hefur ekki verið eftir væntingum,“ segir Valgeir við Fréttablaðið. Hann segir að kallað verði eftir skýringum á næsta fundi enda standi vilji til þess að göngin verði opnuð fyrr.

Valgeir segist meðal annars vera ósáttur við hversu stutt sé síðan vegavinna í Fnjóskadal hafi hafist. Farið hafi verið á mis við  tækifæri til að ganga þannig frá verkinu að svæðið líti vel út þegar göngin verða opnað, til dæmis með því að sá í sárin og ganga frá jarðvegi.

Hann segir að í síðustu verkáætlun, sem barst í febrúar, hafi verið gert ráð fyrir að göngin yrðu opnuð í september eða október. Það hafi einhverra hluta vegna ekki staðist.

Sjá einnig: Vatnið fossar inn í Vaðlaheiðargöng hálfu ári fyrir opnun

„Það er ýmislegt eftir“

Ekki náðist í Einar Hrafn Hjálmarsson, staðarstjóra Ósafls, sem er í eigu ÍAV/Marti, við vinnslu fréttarinnar. Í viðtali við RÚV á mánudaginn í síðustu viku sagði hann að allt kapp yrði lagt á því að skila göngunum tilbúnum á þessu ári. „Það er ýmislegt eftir þegar við afhendum verkkaupa verkið, þeir eiga eftir að gera sínar prófanir og svoleiðis. En við allavega ætlum að reyna að klára alla okkar verkþætti á þessu ári, það er alveg ljóst,“ sagði hann við RÚV.

Fram kom að mannvirki tengd vatnsflaumi í göngunum séu skemmst á veg komin. Valgeir segir við Fréttablaðið að honum sé ekki kunnugt um að neitt óvænt hafi komið upp síðan slegið var í gegn, sem skýrt geti þær miklu tafir sem orðið hafi á verkinu. Eftir skýringum verði kallað.