Fjöl­skylda Val­gerðar Jóns­dóttur, sem oftast er kölluð Vala, ætlar að hlaupa í Reykja­víkur­mara­þoni Ís­lands­banka á laugar­daginn næst­komandi. Þau safna fyrir bíl sem Vala getur notað en árið 2020 lenti hún í slysi þar sem hún hlaut mænu­skaða, síðan þá hefur hún notast við hjóla­stól.

„Við erum að hlaupa fyrir bíl,“ segir systir Völu, Kristín Soffía Jónsdóttir, hlæjandi og grínast með tvíræðnina. Hún bætir við að systir sín verði geggjuð á bílnum.

Kristín ætlar að hlaupa en hún lýsir Völu sem blóð­heitum um­hverfis­sinna.

„Hún er blóð­heitur um­hverfis­sinni og borðar ekki kjöt, hefur ekki átt bíl á ævi sinni og hefði örugg­lega fyrir slysið á­byggi­lega sleppt því alltaf. Þannig að þetta er svo­lítið erfitt skref. Hún er föst á því að fá eins lítinn raf­magns­bíl og hún kemst upp með,“ segir Kristín.

„Eftir ára­tugi af bíl­lausum lífs­stíl þá langar Völu í sinn eigin bíl til að geta farið víðar um og verið sjálf­stæðari. Vinir hennar og fjöl­skylda ætla að hlaupa fyrir hana í mara­þoninu og er markið sett á að ná að safna fyrir litlum bíl fyrir gelluna,“ segir á söfnunar­síðu Reykja­víkur­mara­þons.

Góð­gerðar­málið hefur hlotið nafnið Team Vala og þegar fréttin er unnin hafa rúmar átta hundruð þúsund krónur safnast. Svo Vala geti notað bílinn verður hún að setja í hann sérstakan stýribúnað svo hún geti stýrt honum með höndunum.

Alltaf átt erfitt með að biðja um aðstoð

„Þetta er bara mjög flott og fal­legt fram­tak hjá fólki,“ segir Vala og bætir við: „Ég hef alltaf átt erfitt með að biðja um að­stoð þannig að systur mínar bara ruku í það að henda í söfnun.“

Vala segist ekki hafa búist við jafn miklum við­brögðum. „Ég sagði við Kristínu [systur Völu] að ég reiknaði með fimm­tíu þúsund krónum, þannig að þetta hefur komið að­eins á ó­vart,“ segir hún.

„Mig hefur aldrei langað að eiga bíl. Ég hef aldrei átt bíl og það var aldrei á planinu í síðasta lífi,“ segir Vala en sjálf ætlar hún ekki að taka þátt í hlaupinu.

„Ég var kannski að pæla í að fara í skemmtiskokkið með systur minni svo bara átti ég erfitt að sjá fyrir mér hvort ég væri að fara að rekast í fólk og að þetta væri bara kaos. Þannig að ég verð bara á hliðar­línunni, alveg manna hressust,“ segir hún.

„Þetta er mjög frá­bært og ég er sér­lega þakk­lát en ég er líka pínu vand­ræða­leg, þannig að þetta er bara mjög skemmti­legt,“ segir Vala.