Vala Páls­dóttir, for­maður Lands­sam­bands Sjálf­stæðis­kvenna, til­kynnti rétt í þessu að hún ætli sér ekki í ritara­slag flokksins næstu helgi.
Vala segir í færslu sem hún birti á Face­book- í morgun að hún hafi fengið hvatningu víða úr flokknum til að bjóða sig fram, sem hún sé mjög þakk­lát fyrir. Hún hafi átt skemmti­leg sam­töl vítt og breitt um landið, um stöðu stjórn­mála og flokksins okkar. Hún hafi heyrt að fólk sé á­nægt með störf hennar sem for­maður Lands­sam­bandsins og að hún njóti trausts.

„Að vel í­grunduðu máli ætla ég að halda á­fram á þeirri braut sem ég hef markað með lands­sam­bandinu fremur en að taka við starfi ritara flokksins. Ég kann betur við for­manns­titilinn,“ segir Vala í færslu sinni.

Vala segir að hún sé þakk­lát fyrir hvatninguna og stuðninginn en að besta niður­staðan sé að hún hafi átt gott sam­tal við margt af hennar flokks­fólki. Það muni nýtast henni vel í starfi.

„Ég tel jafn­framt að það hafi skapast góður grund­völlur fyrir sam­starfi lands­sam­bandsins við önnur sjálf­stæðis­fé­lög um land allt. Við hjá LS lofum frekari fundar­her­ferðum, heim­sóknum og við­burðum. Við erum rétt að byrja!“ segir Vala.

Færslu Völu má lesa í heild sinni hér að neðan.

Fyrr í vikunni var greint frá því að Ás­laug Hulda Jóns­dóttir, bæjar­full­trúi flokksins í Garða­bæ, hafi á­kveðið að bjóða sig fram. Jón Gunnars­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins og fyrr­verandi sam­göngu­ráð­herra hefur einnig gefið kost á sér. Ey­þór Arnalds, Hildur Björns­dóttir, og Kristján Þór Magnús­son hafa einnig verið orðuð við hlut­verk ritara en hafa þó ekki gefið form­lega kost á sér.