Benedikta Birgisdóttir, móðir 16 ára drengs með þroskahömlun, er ósátt við að valferli sem skólakerfið bauð þeim upp á hafi verið til einskis.

Drengurinn þeirra fékk ekki inni í þeim tveimur skólum sem foreldrarnir völdu, án þess að nokkrar skýringar fylgdu.

Í febrúar síðastliðnum fékk Benedikta bréf þar sem foreldrunum var boðið að velja tvo framhaldsskóla. Hún hakaði við fyrsta val og annað val.

„Ég er ósátt vegna þess að við sóttum um starfsbrautir og vorum hvött til að skoða skóla,“ segir Benedikta. „Við völdum að athugun lokinni tvo skóla sem við töldum henta okkar barni. Svo heyrum við ekkert frá kerfinu fyrr en í byrjun júní. Þá er okkur tilkynnt að drengurinn okkar hafi fengið inni í þriðja skólanum, hvorugum þeirra sem við sóttum um.“

Benedikta bendir á að um viðkvæman hóp nemenda sé að ræða. Enginn hafi haft samband við foreldrana síðan, enginn hafi nefnt að hann hafi ekki komist inn í þá tvo skóla sem foreldrarnir völdu, eða hvað væri hægt að gera.

„Það sló mig að ekkert samráð var haft. Ég hefði viljað sjá manneskjulegri nálgun, þar sem við værum tekin inn í samtal um þessar ákvarðanir. Ég vil þó taka fram að ég er alls ekki að segja að einn skóli sé verri en annar. En af hverju er verið að láta okkur „velja“ fyrst það var ekkert gert með val okkar? Af hverju eru þá börnin ekki bara sett í tiltekinn skóla án þessa valferlis? Það væri þá bara best að sleppa því,“ segir Benedikta, sem kveðst þó ekki vera ósátt við skóla drengsins.