Eftir að Covid-smit kom upp hjá starfsmönnum The English Pub í Austurstræti og Dönsku kránni í Ingólfsstræti síðastliðinn föstudag hefur The English Pub ekki enn náð að opna dyrnar fyrir gestum. Ástæðan er sú að starfsmenn beggja vakta höfðu blandast sökum sumarleyfa og hafði kráin því ekki mannskap til að standa vaktina.

„Við finnum gríðarlega fyrir því þegar maður missir heila helgi, sem er okkar aðaltekjulind. þetta er rosalega súrt að þurfa að loka, en ég skil þetta samt mjög vel,“ segir Logi Helgason eigandi bæði The English Pub og Dönsku kráarinnar.

„Þetta er það versta sem maður lendir í, að þurfa að loka fyrirtæki og er mikill skaði fyrir okkur,“ segir Logi. Hann telur ekki líklegt að stuðningur fáist frá ríkinu vegna þessarar uppákomu þar sem tekjurnar hafi verið það góðar að undanförnu. „Það hefur verið mjög gott að gera undanfarnar vikur og sé því ekki fram á neinn stuðning, ég stórefast um það.“

Logi segir starfsmenn fara í skimun í dag og að hann vonist til að geta opnað á morgun eftir að niðurstöður koma í ljós. „Ég vonast til þess að færri en fleiri hafi smitast og þá má maður ekki horfa á veltuna á móti,“ segir hann.