Vaktaálagsauki sem hjúkrunarfræðingar á Landspítala hafa fengið vegna tilraunaverkefnis spítalans verður framlengdur til næstu mánaða og nauðsynlegar fjárveitingar tryggðar.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hafa sent Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala, bréf vegna málsins. Mikillar óánægju hefur gætt síðustu daga vegna þess að greiðslurnar féllu niður nú um mánaðamótin. Verða greiðslurnar framlengdar fram í október.

Mikið mæðir á heilbrigðisstarfsfólki um þessar mundir vegna COVID-19 faraldursins. Tilfellum fjölgaði um 45 í gær og eru því 1.364 manns með staðfest smit hér á landi. Þá eru um 6.300 manns í sóttkví. 309 manns hafa náð sér.

Á Landspítala eru 44 einstaklingar með COVID-19, þar af ellefu á gjörgæslu. Á Akureyri hafa tveir verið lagðir inn og er einn á gjörgæslu. Átta manns eru nú í öndunarvél, sá yngsti er 37 ára gamall. Fjórir hafa látist hér á landi af völdum veirunnar.

Fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að aðeins 0,5 prósent þátttakenda í slembiúrtaki Íslenskrar erfðagreiningar hafi reynst smitaðir.