Leilanie Lurina Farao er fædd og uppalin í Namibíu en flutti til Íslands árið 2004. Ástin dreif hana hálfa leið yfir hnöttinn en í Namibíu kynntist hún sjómanni sem vann hjá útgerðinni Sea Flower. Hún er nú gift í annað sinn, Reginald Scott Farao, sem er líka frá Namibíu. „Ég lít á Ísland sem mitt heimaland. Mér finnst gott að búa hér en auðvitað fylgist ég svolítið með fréttum frá Namibíu,“ segir hún.

Leilanie vinnur í mötuneyti fyrir eldri borgara á Hjallabraut í Kópavogi. „Þau vilja vita hvað mér finnst,“ segir hún. Fáir Namibíumenn búa hér á landi. „Ég veit ekki um nema nokkra og þeir tengjast flestir fjölskyldu minni,“ segir hún.

Fréttir af mútugreiðslum og spillingu komu henni ekki á óvart. „Það er mikil og viðvarandi spilling í landinu sem hefur reynst erfitt að uppræta,“ segir Leilanie sem segir það þó jákvætt merki að ráðherrarnir hafi sagt af sér. Henni finnst þó ósanngjarnt að einblína á spillingu í fæðingarlandinu. „Við á Íslandi þurfum líka að taka á spillingu,“ segir Leilanie.

Leilanie segir Namibíu eiga möguleika á betri framtíð. „Margir tala um fátækt Namibíu en það er hins vegar auðugt af náttúruauðlindum. Ef spillingin væri ekki svona mikil væru möguleikarnir meiri,“ segir hún en úti fyrir 1.500 kílómetra strandlengju landsins eru einhver auðugustu fiskimið jarðar. Auðlindirnar hafa hins vegar ekki skilað miklum arði til íbúa landsins vegna rányrkjuveiða.

Ég held það sé gott að þetta mál hafi komið upp, eflaust á fleira eftir að koma í ljós sem tengist öðrum fyrirtækjum á svæðinu

Eiginmaður Leilanie, Reginald Scott Farao tekur undir með henni og segir fréttir af spillingu ekki hafa komið á óvart. „Nei, þvert á móti. Íbúar Namibíu eru vanir umræðu um spillingu ráðamanna en þjóðin er hins vegar að opna augun. Ég held það sé gott að þetta mál hafi komið upp, eflaust á fleira eftir að koma í ljós sem tengist öðrum fyrirtækjum á svæðinu,“ segir Reginald. „Eins og konan mín sagði líka þá er Namibía sérlega auðug af auðlindum og þess vegna ásælast önnur ríki þær. Það reynist þeim líklega auðveldara vegna þess hve stjórnkerfið er veikburða og spilling víða. En svo er þetta líka flókið því núna sækir líka Kína að ríkjum Afríku og ásælist einnig auðlindir okkar,“ segir hann.

Reginald segir flesta Namibíubúa standa í þakkarskuld við Íslendinga vegna þeirrar uppbyggingar sem þeir hafa staðið fyrir frá árinu 1990. „Íslendingar gerðu ótal margt gott fyrir Namibíu og stórfyrirtækið hefur ekki áhrif á það að Namibíumenn eru þakklátir fyrir það. Mörg störf og uppbygging í iðnaði eru Íslendingum að þakka.“

Spilling verður ekki til í tómarúmi

Candice Michelle Goddard er fædd í Durban, Suður-Afríku en fluttist til Namibíu tólf ára gömul. Hún flutti svo til Íslands 1996.

„Ég bjó í Namibíu lengi, bæði fyrir og eftir sjálfstæði Namibíu. Ég er búin aðv era í sjokki yfir þessu, en þó er ég ekki beinthissa. Mér þykir mjög vænt um Namibíu og á ennþá rætur þar.

Mér leiðist líka hvernig sumir á Íslandi, til dæmis Bjarni Benediktsson, eru tilbúnir að skella allri skuld á heimamenn.

Landið er að fara í gegnum sína verstu efnahagskreppu síðan það öðlaðist sjálfstæði fyrir 3o árm. Ég verð frekar reið þegar ég hugsa til allra þeirra sem þetta mál hefur snert á neikvæðan hátt. Þetta skiptir miklu máli því í þessu landi er 29% atvinnuleysi og mikil fátækt,“ segir Candice og nefnir dæmi um hvernig viðskiptahættir Samherja hafa gert Namibíumönnum lífið erfitt. „Bidfish sem er, eða var hluti af Bidvest Namibíu þurfti að skera niður vegna þess að útgerðin fékk ekki nægan kvóta. Bernhard Esau hefur greinilega verið lengi að nota stöðu sína í eigin þágu. Mér leiðist líka hvernig sumir á Íslandi, til dæmis Bjarni Benediktsson, eru tilbúnir að skella allri skuld á heimamenn. Eins og Íslendingar hafi ekki haft rangt við. Mér leiðast þessi viðhorf að Afríka sé bara spillt og menn þurfi að spila eftir því. Ég er ekki að segja að það sé engin spilling í Afríku, en spilling verður ekki til í tómarúmi. Íslendingar eru meðsekir og ég vil sjá aðgerðir, en ég reikna ekki með þeim,“ segir Candice.