Landsréttur staðfesti á föstudag 45 daga fangelsisdóm yfir manni sem réðst á þáverandi kærustu sína í janúar í fyrra. Árásin átti sér stað í sumarbústað og varð barnungur sonur konunnar vitni að henni. Á meðan svaf dóttir mannsins og vaknaði ekki við atburðarásina.

Í lögregluskýrslu lýsti konan atvikum þannig að maðurinn hefði „snappað“ þegar hann hélt að hún væri að taka myndband af honum. Hann hafi rifið af henni símann og sett hann í vatn.

Síðan hafi hanntekið fast um háls hennar, ýtt henni í gólfið og þrengt verulega að hálsinum svo hún næði ekki að anda. Síðan hafi sonur hennar vaknað og gengið fram til þeirra og séð hvað væri að eiga sér stað. Og þá hafi maðurinn hætt.

Í skýrslunni sagðist konan hafa þekkt manninn lengi, en aldrei orðið vitni af hegðun sem þessari af hans hálfu. Þó hafi hún heyrt af henni. Hún sagðist hafa óttast um líf sitt og vildi fá að koma sér og syni sínum burt úr þessum aðstæðum.

Tekinn var skýrsla af drengnum í Barnahúsi. Þar lýsti hann því að hafa séð manninn taka móður sína hálstaki. Hann sagði móður sína hafa meitt sig og kvaðst hafa verið hræddur. Í dómi Landsréttar er tekið fram að skýrslan beri þess merki hversu ungur drengurinn var og því sé erfitt að taka mikið mark á henni.

Fyrir dómi sagði maðurinn að málið væri „stórundarlegt“ og vildi hann meina að hann hefði verið „settur upp í einhvers konar fjárkúgunardæmi.“

Hann vildi meina að hann og konan hafi farið að rífast og að hann hefði ákveðið að sem minnst úr málinu og farið inn í herbergi til dóttur sinnar til að sofa. Síðan hafi konan komið inn í herbergið, tekið hann upp á síma og sagt: „sérðu hvað þú ert fáránlegur sérðu hvað þú ert fáránlegur þú ert útúrruglaður þú ert útúrruglaður.“

Hann segist hafa tekið símann af henni, en hún ráðist á sig. Þá játaði hann að hafa ýtt konunni í bringuna eða hálsinn svo hún félli í jörðina.

Maðurinn var bæði ákærður fyrir líkamsárás og barnaverndarlagabrot og var hann sakfelldur í báðum ákæruliðum. Dómurinn vísaði meðal annars til vottorðs læknis um áverka á líkama konunnar eftir árásina. Þá þótti með öllu ósannað að konan hefði ráðist á mannin eins og hann lýsti sjálfur.