Um þúsund manns sóttu íbúafundinn í íþróttahúsi Grindavíkur síðdegis í gær. Vísindamenn og fulltrúar lögreglu lögðu áherslu á að allir héldu ró sinni og ítrekuðu að ekki væru miklar líkur á hamförum vegna mikils landriss sem orðið hefur á undanförnum dögum rétt vestan við fjallið Þorbjörn sem Grindavíkurbær stendur við. Þó væri mikilvægt að bæjarbúar væru við öllu búnir.

Kristín Jónsdóttir, eldfjalla- og jarðskjálftafræðingur á Veðurstofunni, sagði landrisið hafa aukist jafnt og þétt í viku en það var komið í tvo sentimetra í gær. Afar vel er fylgst með stöðunni af hálfu almannavarna og helstu vísindamanna. Sólarhringsvöktun er hjá Veðurstofunni. „Þar er fólk sem sefur ekki á nóttunni – svo að þið getið sofið á nóttunni,“ sagði Kristín á íbúafundinum í Grindavík í gær.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur fór yfir helstu sviðsmyndir ef sá grunur reynist réttur að um kvikusöfnun sé að ræða. Hún geti hætt mjög fljótlega án frekari atburða, haldið áfram í einhvern tíma án þess að til stærri atburða komi; hún geti líka leitt til gangainnskots með eða án tilheyrandi eldgoss. Þá geti kvikusöfnunin valdið jarðskjálftavirkni með stærri skjálftum á svæðinu.

Unnin hefur verið rýmingaráætlun sem íbúar í Grindavík fengu upplýsingar um á fundinum. Þrjár leiðir eru færar úr Grindavík og ólíklegt þykir að þær lokist allar. Fjórða mögulega leiðin er sjóleiðin til Þorlákshafnar. Komi til rýmingar er stefnt að því að henni verði lokið áður en eldgos hefst.

Á fundinum var einnig farið yfir verkferla komi til neyðarrýmingar. Fólk verði látið vita með textaskilaboðum og lögregla og björgunarsveitir geri íbúum einnig viðvart með sírenum ef rýma þarf bæinn að næturlagi. Komi til rýmingar verða opnaðar fjöldahjálparmiðstöðvar í Íþróttahöllinni í Kópavogi og Kórnum í Kópavogi.

Á fundinum í gær lagði lögregla áherslu á að fólk undirbyggi sig undir að til rýmingar gæti komið. Var því beint til íbúa að gera heimilisáætlun og lista yfir þær nauðsynjar sem taka þurfi með ef til rýmingar kemur. Þá voru foreldrar beðnir að ræða við börn sín um stöðuna og hafa þau með í ráðum.