Það tóku 70 strætisvagnar þátt í tæmingu miðbæjarins að lokinni Menningarnótt í gærkvöldi. Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó segir að heilt yfir hafi gengið vel en á tímabili hefðu vagnarnir mátt vera fleiri, slíkur var mannfjöldinn. Strætó sendi frá sér tilkynningu á vefsíðu sinni og á appinu að tæming miðbæjarins myndi eiga sér stað við Höfða á Sæbrautinni. Þrátt fyrir það stefndi stór hópur á Hlemm og þurfti að vísa því fólki á réttan brottfararstað og fengu sumir far frá Hlemmi að Höfða.

Þá hafi samstarf Strætó við lögreglu og viðburðarstjóra Menningarnætur gengið vel og voru allir ánægðir með brottfararstaðinn.

„Vagnstjórar og flotafulltrúar eiga mikið lof skilið en starfsfólkið vann langar vaktir undir miklu álagi. Ég tel að Strætó geti gengið stoltur frá þessari Menningarnótt,“ segir Guðmundur.

Allir strætisvagnar á höfuðborgarsvæðinu voru troðfullir í gær og var 14 aukavögnum bætt við yfir daginn til að mæta þeim ótrúlega straumi fólks sem lagði leið sína í miðbæinn til að taka þátt í dagskrá Menningarnætur. Mörgum var neitað um far og þurftu sumir að bíða í rúmlega klukkustund eftir vagni með plássi. Þá reyndist sérstaklega erfitt fyrir fjölskyldur með barnavagna að fá far í miðbæ Reykjavíkur.

„Það má alveg skoða tíðnina betur á dögum sem þessum, hafa hana meiri en á 30 mínútna frest,“ segir Guðmundur í samtali við Fréttablaðið.

„Það þótti oft erfitt að koma barnavögnunum fyrir því vagnarnir voru troðfullir. Við munum rýna þetta betur fyrir næsta ár.“