Vagnstjórar Strætó upplifa oft óumburðarlyndi, pirring og hvöss samskipti í gegnum talstöð við höfuðstöðvarnar á Hesthálsi og stjórnstöðina. Upplifa þeir sig stundum niðurlægða eftir þessi samskipti. Þetta kemur fram í gögnum sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Þá kemur einnig fram að vagnstjórar virðist taka sig af leið oftar en þurfa þykir sem skapi óánægju hjá bæði farþegum og öðrum vagnstjórum. Samkvæmt reglum eiga þeir ekki að taka sig af leið nema eftir fyrirmælum stjórnstöðvarinnar.

Í viðtali Fréttablaðsins við nokkra vagnstjóra í haust kom fram að þeir fá einnig yfir sig ýmiss konar leiðindi frá farþegum, sérstaklega þeir sem eru af erlendu bergi brotnir, sem er þriðjungur af fastráðnum vagnstjórum. Töluðu vagnstjórarnir einkum um ókurteisi frá unglingsstúlkum og fordóma hjá eldra fólki.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir að samskiptin við stjórnstöðina séu almennt ekki slæm. „Það er einstaka sinnum sem menn eru beðnir um að vinna vinnuna sína og það fer skakkt í suma,“ segir hann og að þetta sé persónubundið. „Ég kannast ekki við að þetta sé neitt vandamál.“

Jóhannes-Rúnarsson-Strætó.jpg

Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó

Um það að vagnstjórar taki sig af leið segir Jóhannes það aðallega vegna þess að þeir séu orðnir of seinir og aðrir búnir að ná þeim. „Það eru mjög skýrar reglur um að þú tekur þig ekki af leið nema í samráði við stjórnstöðina,“ segir hann.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er einnig töluverð óánægja á meðal vagnstjóra með drægni rafvagnanna. Strætó keypti 14 rafvagna árið 2017 og bætti tíu við ári seinna. Duga þeir ekki heila vakt og verr í frosti. Aki þeir á morgnana til 10 og fari þá í hleðslu. Eru síðan aftur teknir í notkun klukkan 14. Þá kvarta vagnstjórar einnig yfir því að fá ekki nægjanlega kennslu á nýja vagna.

Jóhannes segir að drægnin hafi alltaf legið ljós fyrir og hafnar því að Strætó glími við vagnahallæri. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins óttast vagnstjórar að heilu leiðirnar verði felldar niður á höfuðborgarsvæðinu vegna vagnaskorts. „Við erum með nóg af vögnum, en erum reyndar með mjög gamla vagna þannig að þetta getur stundum verið brothætt. Við höfum ekki lent í neinum vandræðum,“ segir Jóhannes. Segir hann að einu breytingarnar sem gerðar verði á leiðakerfinu á næsta ári séu í Hafnarfirði, um sumarið. Það er breytingar á leiðum 43, 44, 33, 23 og fleirum.