Öldruðum karlmanni hefur verið gert að mæta í blóðtöku fyrir mannfræðilega rannsókn til að skera úr um hvort bróðursonur hans sé í raun sonur hans. Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að staðfesta faðernið.

Fullorðinn karlmaður telur líklegt að maðurinn sé faðir sinn og vill það viðurkennt með dómi. Grunsemdir hans kviknuðu þegar hann frétti að móðir sín hefði sofið hjá bræðrum, þ.e. manninum sem hann taldi verið föður sinn og bróður hans, yfir verslunarmannahelgi og passar tímasetningin við getnaðartíma.

Landsréttur staðfestir úrskurð Héraðsdóms: Frændinn þarf að fara í faðernispróf.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Bræðurnir borguðu saman meðlag

Samkvæmt gögnum frá sjúkrahúsi var maðurinn skráður óskilgetinn og var nafn föður hans ekki gefið upp fyrr en við skírn. Rannsókn hefur áður farið fram á faðerni mannsins en þá kom í ljós að hvorki væri hægt að útiloka skráðan föður né bróður hans frá faðerninu. Í kjölfarið borguðu þeir báðir meðlag með móður mannsins, hálft meðlag hvor. Hvorugur þeirra tók þátt í uppeldinu.

Eftir að skráður faðir mannsins lést ákvað maðurinn að hafa samband við syni hans, sem hann hafði eignast með annarri konu, og fór í DNA rannsókn hjá Íslenskri erfðagreiningu til að athuga hvort þeir gætu verið bræður hans. Niðurstöðurnar sýndu fram á að þeir gætu ekki verið bræður en gætu hins vegar verið bræðrasynir. Reyndi hann án árangurs að hafa samband við manninn sem hann taldi hafa barnað móður sína téða verslunarmannahelgi. Ákvað hann því að fara með málið í gegnum dómskerfið en eftir úrskurð Landsréttar mun hann loksins getað staðfest uppruna sinn.