Í dag er spá suðlægri átt, 5 til 13 metrum á sekúndu, en norðaustlægari á Vestfjörðum. Allvíða talsverð rigning fram eftir morgni en dregur úr vætu seinnipartinn.

Úrkomulítið verður á Austurlandi, en gengur í suðvestan 10 til 18 með skúrum suðaustanlands og bætir í úrkomu norðvestan til í kvöld.

Á morgun er spáð vestlægri átt, 5 til 13 metrum á sekúndu en hægari og norðlægari norðvestan til seinni partinn. Hiti er á bilinu 9 til 19 stig, hlýjast austan til .

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands að flestar lægðirnar yfir landinu til norðurs fyrir vestan land og mun því lítið lát verða á vætutíðinni um landið sunnan- og vestanvert, en samt sem áður mun restin af landinu fá vætu líka, en oftast í mun minni skömmtum.

Með suðlægum áttum kemur líka mun mildara loft og er loftmassinn hlýr að útlit er fyrir að það rigni á hæstu jöklum líka, en oftast snjóar þar þegar skil ganga yfir.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Vestlæg átt, 8-15 m/s og skúrir, en norðlægari og rigning um tíma á Norðurlandi, hvassast og bjartviðri á Suðausturlandi. Hiti 7 til 16 stig, mildast austanlands. Lægir um kvöldið.

Á fimmtudag:
Suðvestlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og skúrir, en fer að rigna suðvestan til um kvöldið. Hiti 8 til 14 stig.

Á föstudag:
Vestlæg átt og víða rigning eða skúrir, en yfirleitt þurrt austanlands. Milt veður.

Á laugardag og sunnudag:
Suðvestlæg eða breytileg átt og væta með köflum, en lengst af þurrt austanlands. Áfram milt veður.

Á mánudag:
Útlit fyrir hæga, en milda norðlæga átt og þurrt í flestum landshlutum.

Gular veðurviðvaranir

Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi til hádegis í dag þar sem er talsverð rigning og jafnvel mikið til fjalla.

Búast má við vatanvöxtum í ám og lækjum, sem geta flætt yfir bakka sína. Vöð geta orðið varasöm eða ófær og samgöngutruflanir hugsanlegar.