Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu segir úti­lokað að rúm­lega tví­tugur karl­maður hafi orðið fyrir á­verkum sem hann lýsir við hand­töku lög­reglu en líkt og Frétta­blaðið greindi frá fyrr í dag átti at­vikið sér stað að­fara­nótt laugar­dags í Banka­stræti. Ekki er þó vitað hvernig maðurinn slasaðist þar sem það náðist ekki á upp­töku.

„Við getum sagt með vissu að þetta er ekki eftir lög­regluna,“ segir Ás­geir Þór Ás­geirs­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu í sam­tali við Frétta­blaðið en lög­regla hefur nú farið yfir mynd­efni búk­mynda­véla þriggja lög­reglu­manna sem voru á vett­vangi á­samt mynd­bandi úr eftir­lits­mynda­vél á vegum fyrir­tækis í götunni.

Að sögn Ás­geirs var tölu­vert um slags­mál á vett­vangi og tók meðal annars maðurinn sem kjálka­brotnaði þátt í þeim slags­málum en ekki er hægt að full­yrða að á­verkarnir hafi komið til vegna þeirra slags­mála. „Lög­reglu­mennirnir vissu ekki hvað hafði átt sér stað, þau þurftu náttúru­lega bara að tryggja vett­vang og passa að enginn færi,“ segir Ás­geir.

Aðgerðir lögreglu lægsta stig valdbeitingar

Myndband sem maðurinn tók af atvikinu, og fór í dreifingu á samfélagsmiðlum í morgun, sýnir aðeins nokkrar sekúndur af samskiptum lögreglu við fólkið sem sætti handtöku og stoppar það áður en maðurinn sjálfur er handtekinn.

„Það sem lög­reglan gerði á vett­vangi er lægsta stig vald­beitingar sem eru skipanir, það er að skipa fólki að leggjast niður og setti það síðan í járn,“ segir Ás­geir. „Það væri fróð­legt ef að við gætum spilað þessar upp­tökur fyrir al­menning til þess að leyfa því að heyra hvað lög­reglan mátti þola í munn­söfnuði og dóna­skap.“

Enn sem komið er hefur enginn lagt fram kæru vegna at­viksins en segir Ás­geir að það geti breyst. „Við erum með nöfn á öllum sem voru þarna á vett­vangi sem voru að slást þannig það er hægt að rekja það ef það kemur kæra,“ segir hann en enginn vildi tjá sig um málið við hand­tökuna.