Ólafur Arnarson, hagfræðingur, segir að Bjarni Jónsson, stjórnarformaður Íslandspósts, sveitarstjórnarmaður í Skagafirði og oddvitaefni Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, hafi ákveðið upp á eigin spýtur að lækka gjaldskrá fyrir pakkasendingar Íslandspósts í ársbyrjun 2020.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Ólafs í Fréttablaðinu, en þar lætur hann að því liggja að gjaldskrárlækkunin hafi kippt fótunum undan starfsemi fyrirtækja á landsbyggðinni sem hafa verið í samkeppni við Íslandspóst – og „væntanlega líka í Norðvesturkjördæmi,“ skrifar Ólafur sem vill þar með meina að Skagfirðingurinn á formannsstóli Íslandspósts hafi þar með gert sveitungum sínum skráveifu.

Ólafur vitnar svo í eigin heimildir: „Tveir stjórnarmenn Íslandspósts, Thomas Möller, fulltrúi Viðreisnar og Eiríkur H. Hauksson, fulltrúi Framsóknar, lögðu fram bókun í desember 2020 þar sem fram kemur að gjaldskrárlækkunin var ekki borin undir stjórn eins og lög kveða á um. Einnig kemur fram í bókuninni að tap hafi verið á pakkasendingum Íslandspósts fyrir lækkunina og það hafi því aukist, sem brýtur í bága við skýr lagaákvæði um að fyrirtækinu beri að haga verðlagningu sinni þannig að hún standi undir raunkostnaði og hæfilegum hagnaði ofan á.“

Ólafur segir að stjórnarformaðurinn hafi kvartað við fjármálaráðherra yfir aðfinnslum téðra stjórnarmanna sem „brást skjótt við og bað Viðreisn og Framsókn vinsamlegast um að skipta út þessum óþolandi stjórnarmönnum,“ eins og stendur í greininni. Framsóknarfulltrúinn hafi fengið að sitja áfram „en fjármálaráðherra fleygði fulltrúa Viðreisnar út úr stjórninni og setti í staðinn embættismann úr sínu eigin ráðuneyti.“