„Þetta er óstjórnleg þörf fyrir spennu og einhverja útrás,“ sagði vændiskaupandi sem rætt var við í fréttaskýringaþættinum Kveik, sem sýndur var í kvöld. Í þættinum var fjallað um súludans og vændi; bæði út frá hliðum seljenda og kaupenda.

Lára Ómarsdóttir fréttakona mælti sér mót við þrjá menn sem ætluðu að kaupa vændi. Þeir hlupu allir á brott þegar þeir sáu hver beið þeirra, en einn þeirra féllst síðar á að ræða við Láru án þess að vera í mynd. Fram kom að um var að ræða 32 ára giftan karlmann; tveggja barna föður.

Hann sagðist leita í vændi því hjónalífið væri bágborið. Hann hefði líka haldið fram hjá konu sinni með öðrum konum en vændiskonum, síðustu þrjú til fjögur árin. Spurður hvers vegna hann endaði ekki hjónabandið sagðist hann ekki vilja gera það barna þeirra vegna. Þá var hann spurður hvort ekki væri betra að ræða þessi mál við eiginkonuna svaraði hann: „Ég er búinn að fullreyna að ræða við konuna.“

Maðurinn sagðist í tvígang hafa gengið út þegar hann ætlaði að kaupa vændi, vegna þess að honum leyst ekki á aðstæður kvennanna. „Aðstæðurnar [voru] þannig að það var eins og þær væru ekki þarna af fúsum og frjálsum vilja.“ Hann sagðist aðeins hafa heimsótt íslenskar vændiskonur. „Ég hef reynt þetta fjórum eða fimm sinnum,“ sagði hann.

Maðurinn sagði að eftirsjá hefði stundum fylgt þessum athöfnum en þær væru knúnar áfram af óstjórnlegri þörf fyrir spennu og útrás. „Vonandi verður þetta mér lexía,“ sagði hann við Láru.