Presturinn Robert Enyart sem hélt úti útvarpsþætti þar sem hann gagnrýndi reglulega sóttvarnaraðgerðir bandarískra stjórnvalda, grímunotkun og bóluefni, lést á dögunum af völdum Covid-19.

CNN greinir frá þessu og segir Enyart enn einn einstaklinginn sem lést af völdum Covid-19 eftir að hafa nýtt vettvang sinn í fjölmiðlum til að gera lítið úr sóttvarnaraðgerðum.

Enyart vann dómsmál í síðasta ári eftir að hafa kært ákvörðun stjórnvalda í Colorado að setja á fjöldatakmörkun og krefjast grímuskyldu í kirkjunni sem hann predikaði í.

Sjálfur hafði hann orð á því að hann og eiginkona sín hefðu afþakkað bóluefni en hann var einnig duglegur að ræða umdeildar skoðanir sínar á fóstureyðingum og einstaklingum sem létust úr eyðni.